Fara í efni
KA

Slök spilamennska KA gegn Val – UMFJÖLLUN

KA-liðið spilaði ekki vel í dag og sá aldrei til sólar í rigningunni á Akureyri. Ljósmyndir: Þórir Tryggvason

KA-menn töpuðu stórt gegn Val í 7. umferð Bestu deildar karla í dag eins og Akureyri.net sagði frá HÉR. Spilamennska liðsins var slök og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Segja má að leik hafi verið lokið eftir 45 mínútur.

_ _ _

0:1

Það var einungis tæp mínúta liðin af leiknum þegar fyrsta markið leit dagsins ljós. Andri Rúnar Bjarnason gerði vel í að ná boltanum niður eftir langa sendingu fram völlinn. Aron Jóhannsson átti skot sem varnarmenn KA komust fyrir en Adam Ægir Pálsson náði þá boltanum hægra megin í teignum við vítateigslínuna og skoraði með fínu skoti sem hafnaði í fjærhorninu.

Arnar Grétarsson, þjálfari Vals og fyrrum þjálfari KA fagnar fyrsta marki leiksins. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

_ _ _

0:2

Á 29.mínútu bætti Aron Jóhannsson við öðru marki Vals með frábæru skoti í teignum. Eftir gott spil Valsara kom Andri Rúnar boltanum á Kristin Frey hægra megin í teig KA. Kristinn Freyr lyfti boltanum á Aron sem tók boltann á lofti og hamraði honum í netið. Steinþór Már náði að slá í boltann en það dugði ekki til.

0:3

Valsmenn komust svo verðskuldað í 3:0 forystu undir lok fyrri hálfleiks. Sigurður Egill kom boltanum upp völlinn á Andra Rúnar sem snéri Ívar Örn af sér. Andri tók á sprett og fór í þríhyrningsspil við Guðmund Andra rétt utan teigs. Andri átti fast skot sem fór fram hjá Steinþóri og í netið.

Boltinn hafnar í netinu eftir skot Andra Rúnars og staðan orðin 3:0 Valsmönnum í vil. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

_ _ _

Staðan var því 0:3 Valsmönnum í vil þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks. Spilamennska KA var slök og liðið virkaði andlaust. Stemningin í stúkunni var eftir því og fækkaði áhorfendum töluvert í síðari hálfleik. Ekki bætti úr skák að í hálfleik fór að helli rigna.

Hallgrímur Jónasson þjálfari gerði tvær breytingar á KA-liðinu í hálfleik og var spilamennska liðsins betri í seinni hálfleik, enda varla annað hægt. Þrátt fyrir það sköpuðu KA-menn ekki mikið af opnum færum. Liðið fékk nokkur föst leikatriði sem sköpuðu hættu á köflum ásamt nokkrum langskotum. Dusan Brkovic fékk hættulegasta færi KA-manna á 70.mínútu en skalli hans eftir hornspyrnu fór yfir markið.

0:4

Valsmenn áttu eftir að bæta við einu marki til viðbótar. Adam Ægir Pálsson skoraði þá sitt annað mark á 90.mínútu leiksins. Eftir lélega sendingu úr vörn KA sem Haukur Páll Sigurðsson komst inn í, átti Haukur sendingu á Kristin Frey sem keyrði inn í teig og átti sendingu inn á markteig frá vinstri. Þar kom Adam á ferðinni og gat ekki annað en skorað.

Adam Ægir í baráttunni. Hann reyndist KA-liðinu afar erfiður í leiknum. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

Fleiri mörk voru ekki skoruð og fjögurra marka tap því staðreynd. Þetta er í fyrsta skipti síðan í júní árið 2019 sem KA fær á sig fjögur mörk á heimavelli í deildarleik en þá tapaði liðið 4:3 gegn Víkingum frá Reykjavík.

Það er ljóst að spilamennska liðsins gegn bestu liðum deildarinnar þarf að batna ætli KA-menn sér að taka þátt í toppbáráttu en liðinu hefur mistekist að skora í leikjunum gegn Val og Víkingum.

Næsti leikur liðsins er í bikarnum gegn HK á fimmtudaginn kemur en hann fer fram í Kórnum.