Fara í efni
KA

Ævintýralegur KA-sigur í Garðabæ

KA-menn fagna sigurmarki Elfars Árna Aðalsteinssonar í sigrinum á Stjörnunni í deildarleik í Garðabænum fyrr í sumar. Þorri Mar Þórisson, Steinþór Freyr Þorsteinsson og Elfar Árni. Ljósmynd: fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð.

KA-menn fögnuðu gríðarlega en Stjörnumenn trylltust af bræði á lokasekúndum bikarleiks félaganna í Garðabænum í kvöld, þegar Elfar Árni Aðalsteinsson kom KA í 2:1 og tryggði liðinu sigur á síðustu sekúndum uppbótartíma.

Ekki er að undra þótt heimamenn hafi reiðst því í sjónvarpsupptöku sést að boltinn var farinn út af vellinum þegar Sveinn Margeir Hauksson spyrnti honum fyrir markið til Elfars. Ákvörðun dómaranna verður hins vegar ekki breytt og KA-menn verða í pottinum þegar dregið verður í 16 liða úrslitum keppninnar.

Stjörnumenn komu boltanum tvívegis í mark gestanna á fyrstu 11 mínútum leiksins, en dómarinn sá eitthvað athugavert í bæði skiptin. Stjörnumenn fengu tvö góð færi að auki og Hallgrímur Mar þrumaði rétt framhjá Stjörnumarkinu, en fyrri hálfleiksins verður að öðru leyti aðallega minnst fyrir 16 hornspyrnur; eina á tæplega þriggja mínútna fresti! KA fékk níu og Stjarnan sjö.

Emil Atlason náði loks forystu fyrir Stjörnuna á 57. mínútu þegar hann skallaði í markið eftir góða fyrirgjöf en Sebastian Brebels jafnaði fyrir KA þegar vallarklukkan sýndi 86. mínútu, en miðað við  uppbótartímann jafnaði Brebels í raun þegar 81 mínúta var liðin. Vel var að því marki staðið; Hrannar Björn Steingrímsson fékk langa sendingu yfir á markteiginn vinstra megin, renndi boltanum út í teig og Brebels skoraði með góðu skoti. Það var svo á síðustu andartökunum sem Elfar Árni gerði sigurmarkið sem fyrr segir.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.