Fara í efni
KA

Ævintýralegur endir og KA náði í stig

Jöfnunarmarkið í blálokin! Sigþór Gunnar Jónsson smeygir sér á milli Antons Rúnarssonar (t.v.) og Alexanders Arnar Júlíussonar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Tvær af bestu óskráðu reglum handboltamanna (og mun fleiri auðvitað) eru: Aldrei að gefast upp! og Leikurinn er ekki búinn fyrr en dómarinn flautar af. KA-menn mundu báðar þessar reglur í kvöld, þegar þeir gerðu jafntefli, 27:27, við Valsmenn í Olísdeildinni í KA-heimilinu. Valsmenn virtust aftur á móti búnir að steingleyma síðari reglunni.

Valsmenn höfðu sex marka forystu, 26:20, þegar fimm og hálf mínúta var eftir og munurinn var fjögur mörk þegar nákvæmlega þrjár mínútur voru eftir, 27:23. KA-menn neituðu að gefast upp, þrátt fyrir að staðan væri vonlítil, og gerðu fjögur síðustu mörkin. Gestirnir skutu sig í fótinn með fádæma klaufaskap, auk þess sem skapið hljóp með þá í gönur. Þegar tvær mínútur voru eftir og staðan 27:24 bað Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, um leikhlé og fékk en var einhverra hluta vegna afar ósáttur, barði í ritaraborðið og fékk tveggja mínútna brottvísun að launum. Einum leikmanna hans hafði þegar verið vísað af velli þannig að framkoma Snorra gerði það að verkum að hans menn voru tveimur færri um tíma.

Valsmenn klúðruðu næstu sókn, Jóhann Geir Sævarsson minnkaði muninn í tvö mörk þegar ein og hálf mínúta var eftir og aðeins nokkrum sekúndum síðar var dæmdur ruðningur á Valsmenn. Árni Bragi Eyjólfsson gerði 26. mark KA úr víti þegar 53 sekúndur voru eftir og Valsmenn voru enn í stökustu vandræðum í næstu sókn, þá einum færri, og ruðningur var dæmdur þegar 16 sekúndur voru eftir. Það var svo Sigþór Gunnar Jónsson sem reyndist hetja KA-manna; smeygði sér á milli varnarmanna og skoraði þegar aðeins fimm sekúndur voru eftir!

Ævintýralegar lokamínútur og fögnuður þeirra gulu og bláu var mikill eins og gefur að skilja. Valsmenn, sem voru allt að því með unnin leik í höndunum, voru aftur á móti vægast sagt óhressir og fóru ekki leynt með það. Þeir verða þó að líta í eigin barm.

Öll tölfræði leiksins

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var ekki beinlínis blíður á manninn þegar hann hellti úr skálum reiði sinnar yfir Magnús Sigurólason tímavörð í KA-heimilinu eftir að flautað hafði verið til leiksloka. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.