Fara í efni
KA

Á leið í KA-heimilið með viðkomu á golfvellinum!

Einar Rafn Eiðsson til vinstri, með Móeiði dóttur sína, og Óðinn Þór Ríkharðsson á Jaðri í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Handboltakapparnir Einar Rafn Eiðsson og Óðinn Þór Ríkharðsson gengur báðir til liðs við KA í sumar eins og íþróttaáhugamönnum er kunnugt um, en ekki er víst að margir viti að báðir eru líka góðir kylfingar og taka þátt í Íslandsmótinu í golfi sem nú fer fram á Jaðarsvelli. Einar Rafn er í Keili í Hafnarfirði, Óðinn Þór í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar, GKG.

Einar Rafn kom til KA úr FH en Óðinn Þór frá Danmörku þar sem hann lék með Tvis Holstebro síðasta vetur. Hér heima hafði hann leikið með HK, Fram og FH.

Þeir félagar voru léttir þegar Akureyri.net tók þá tali á Jaðarsvelli eftir keppni gærdagsins.

„Óðinn er alla daga í golfi,“ segir skyttan Einar Rafn en hornamaðurinn Óðinn Þór hlær og segir því reyndar öfugt farið.

„Nei, ég hef verið að byggja hús í allt sumar; ætli þetta sé ekki sjötti eða sjöundi hringurinn sem ég spila,“ segir Einar Rafn. „Óðinn plataði mig til að vera með í mótinu og ég var að skíta í mig af stressi fyrsta daginn!“

Unglingalandsliðsmaður og klúbbmeistari

Óðinn segist ekki hafa spilað mikið golf í Danmörku, þar sem hann lék síðustu misseri. „Ég hef heldur ekki spilað mikið í sumar, sennilega 12 hringi,“ segir hann.

„Nei, alla daga ...“ segir Einar Rafn.

Svona er vináttan stundum!

Báðir hafa verið með á Íslandsmóti meistaraflokks áður, Óðinn síðast í hittifyrra en Einar fyrir einum 13 eða 14 árum minnir hann.

Óðinn Þór var unglingalandsliðsmaður á yngri árum og tók þátt í European Young masters árið 2013.

En hefurðu orðið klúbbmeistari? spyr Einar Rafn.

„Nei,“ er svarið. „Hann hefur nefnilega orðið klúbbmeistari, þess vegna spyr hann,“ segir Óðinn til útskýringar og hlær. Einar sigraði í meistaramóti Keilis um miðjan fyrsta áratug aldarinnar.

Kylfusveinn á morgun

Hvorugur hefur áður spilað Jaðarsvöll á hvítum teigum, sem meistaraflokkur karla notar en Einar lék völlinn á sínum tíma í sveitakeppni.

„Völlurinn er mjög erfiður þegar spilað er á hvítum teigum. Mjög krefjandi,“ segir Einar. Óðinn Þór tekur enn dýpra í árinni: „Hann er stjarnfræðilega erfiður. Það tekur á bæði andlega og líkamlega að spila hann. Völlurinn er langur og brautirnar eru mjóar.“

Þegar blaðamaður ræddi við þá félaga var ekki ljóst hvort Óðinn Þór kæmist í gegnum niðurskurðinn og héldi áfram leik. Mjótt var á munum, en svo fór að hann komst áfram. Ákveðið var að Einar Rafn yrði þá kylfusveinn hans, en vegna æfingar hjá KA gat hann reyndar ekki sinnt því starfi í dag en Óðinn Þór tjáði blaðamanni í bítið að Einar Rafn yrði með honum á síðasta hring mótsins á morgun.

Gamall draumur rætist

Þegar talið berst aftur að handboltanum kemur í ljós að gamall draumur rættist í sumar þegar félagarnir gengu til liðs við KA.

„Ég get varla útskýrt það en 2001 og 2002, þegar KA-menn voru að berjast við Hauka, fannst mér strax eitthvað sexý við KA,“ segir Einar Rafn. Faðir hans, Eiður Arnarson, var þá formaður handboltadeildar Hauka en Einar segist hafa hrifist af Akuryrarliðinu og allar götur síðan hafi í raun blundað í honum að koma norður.

„Hann smitaði mig,“ segir Óðinn Þór. „Við ætluðum eiginlega að vera löngu komnir norður, en svo fór ég til Danmerkur þannig að þetta frestaðist. Hann vildi ekki fara án mín.“

Eiginkona Einars, handboltakonan Unnur Ómarsdóttir, er frá Akureyri. Hún mun leika með Íslandsmeisturum KA/Þórs í vetur. „Ég á svo helling af frænkum og frændum hér fyrir norðan,“ segir hann. Í þeirri hópi eru kunnir kappar í handboltaheiminum, Jóhannes Bjarnason, margreyndur þjálfari, og Heimir Örn Árnason, sem lengi gerði garðinn frægan sem leikmaður.