Fara í efni
KA

600 milljónir næstu ár í uppbyggingu hjá KA

Gervigrasvöllurinn var síðasta stóra framkvæmdin á félagssvæði KA. Hann var vígður formlega 19. júní 2013 og tóku þeir Þormóður Einarsson, til hægri, og Siguróli Sigurðsson fyrstu spyrnuna, hvor á sínum vallarhelmingi, við upphaf leikja stráka og stelpna í 5. flokki. Til vinstri er Gísli Már Ólafsson, faðir núverandi formanns KA, Ingvars Más Gíslasonar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Akureyrarbær og Knattspyrnufélag Akureyrar skrifuðu í gær undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæði KA við Dalsbraut. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, sem undirritaði samninginn fyrir hönd bæjarins, greindi frá því við þetta tækifæri að gert væri ráð fyrir því í fjárhagsáætlun bæjarins að á árunum 2021 til 2024 færu 600 milljónir króna í uppbyggingu á svæðinu. Undirritunin var sýnd í afmælisþætti KA sem sendur var út á netinu í dag, í tilefni 93 ára afmælis félagsins á föstudaginn.

Í viljayfirlýsingunni felst að KA er heimilt að hefja vinnu við nýtt deiliskipulag á félagssvæði sínu, þar sem gert er ráð fyrir gervigrasvelli, áhorfendastúku og félagsaðstöðu.

Ingvar Már Gíslason, formaður KA, skrifaði undir yfirlýsinguna fyrir hönd félagsins og sagði að nú yrði lagt af stað í stærstu vegferð þess hin síðari ár, við að skipuleggja svæðið og horfa til framtíðar um það hvernig hag félagsins sé best borgið. „Þetta er samvinnuverkefni okkar KA-manna og verður unnið í góðu samstarfi og samráði við deildir félagsins og félagsmenn KA. Fyrirhugað er að þegar deiliskipulag liggur fyrir og það samþykkt af bæjarstjórn verði gerður samningur við Akureyrarbæ um fyrirhugaða uppbyggingu þar sem fram mun koma nákvæm áætlun um verkefnið; stofnkostnaður, forgangsröðun, útfærsla og tímaáætlun,“ sagði Ingvar formaður í ávarpi sínu. 

Við undirritunina óskaði Ásthildur KA-mönnum til hamingju með daginn. „Ég held að það geti allir verið sammála hér um það að það sé risaskref fyrir félagsstarfið hjá KA-mönnum að geta farið í þetta verkefni. Þannig að ég óska ykkur til hamingju og hlakka til þessa samstarfs okkar á milli og hlakka til þegar við getum séð glæsilega uppbyggingu á þessu svæði hér verða að veruleika.“

  • Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, og Ingvar Már Gíslason, formaður KA, við undirritun samningsins.