Fara í efni
KA

45 milljóna hagnaður af rekstri KA í fyrra

Aðalstjórn KA, frá vinstri: Vignir Már Þormóðsson varaformaður, Eiríkur S. Jóhannsson formaður, Sigríður Jóhannsdóttir gjaldkeri og Hjalti Þór Hreinsson. Auk þeirra er Linda Ívarsdóttir í stjórninni. Mynd af vef KA.

Hagnaður af rekstri Knattspyrnufélags Akureyrar varð 45 milljónir króna á síðasta ári. Þetta var upplýst á aðalfundi KA á þriðjudagskvöldið og kemur fram á vef félagsins.

Síðasta rekstrarár var það stærsta í sögu KA og hefur velta félagsins aldrei verið jafn mikil og árið 2023.

Eiríkur S. Jóhannsson formaður félagsins fór yfir skýrslu stjórnar og liðið ár á aðalfundinum í KA-heimilinu. „Rekstur félagsins var góður á árinu 2023 en rekstrartekjur félagsins námu rúmum 822 milljónum kr, meðan rekstargjöld voru rúmar 777 miljónir kr. Eftir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld var hagnaður félagsins því rúmar 45 milljónir kr.,“ segir á vef KA.

„Efnahagur félagsins stendur einnig vel en eignir félagsins eru tæpar 284 milljónir kr og þar af eru veltufjármunir rúmar 151 milljón kr.“

Stjórn félagsins var endurkjörin en ásamt Eiríki sitja í stjórn félagsins þau Vignir Már Þormóðsson, Sigríður Jóhannsdóttir, Linda Ívarsdóttir og Hjalti Þór Hreinsson auk þess sem Arna Hrönn Skúladóttir er varamaður.

KA verður 100 ára 2028. Í fréttinni um aðalfundinn kemur fram að sögunefn félagsins er skipuð Hrefnu Torfadóttur, Ágústi Stefánssyni, Vigni Má Þormóðssyni, Hlyni Þormóðssyni og Lindu Ívarsdóttur. Þá skipa Jakobssjóð þeir Bjarni Áskelsson, Ingvar Már Gíslason og Magnús Sigurður Sigurólason.

„Framundan eru spennandi tímar hjá félaginu þar sem framkvæmdir á íþróttasvæðinu eru að hefjast og munum við sjá miklar breytingar á félagssvæði okkar næstu misseri. Glæsileg félagsaðstaða verður byggð samhliða nýjum keppnisvelli fyrir knattspyrnu með stúku,“ segir í fréttinni.

Félagsgjöld voru ákveðin 6.000 kr og er félagsmönnum bent á að hægt er að hafa samband við Arnar Gauta til að ganga frá þeim í gauti@ka.is.