Fara í efni
KA

1941 – Fyrsti opinberi íshokkíleikur á Íslandi

Fyrsti opinberi íshokkíleikurinn á Íslandi; á skautamótinu í Stórhólma sunnudaginn 30. mars 1941. A-lið Skautafélags Akureyrar sigraði B-lið félagsins 4:2. Mynd: Minjasafnið á Akureyri/Eðvarð Sigurgeirsson

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 65

Skautafélag Akureyrar hið fyrra var stofnað í upphafi 20. aldar, jafnvel aldamótaárið 1900 en um það liggja ekki fyrir óyggjandi gögn. Svo virðist sem það hafi aðallega verið skemmtiklúbbur fyrir fína fólkið í kaupstaðnum „er vildi hlæja og gantast með sínum líkum úti undir berum himni,“ eins og segir í Sögu Skautafélags Akureyrar eftir Jón Hjaltason sem kom út á 60 ára afmæli þess félags 1997.

Í bókinni segir Jón einnig að „ófínni Akureyringar“ hafi engu að síður notið góðs af starfsemi skautafélagsins. „Þegar Pollinn lagði frá Oddeyrartanga, í austur og vestur, og inn á Leiru og ísinn fylltist af fólki lét skautafélagið koma fyrir bekkjum á ísnum og samdi jafnvel við hornaleikaraflokk Magnúsar Einarssonar um að spila úti á ísnum. Háir sem lágir skemmtu sér þá jafnt við bumbuhljóm og gjallandi lúðrahjóm.“

  • Vert er að nefna að nýlega var fjallað lítillega um Magnús Einarsson sem þarna er nefndur – Magnús organista – í TÓNDÆMI, vikulegum pistli á Akureyri.net þar sem rifjað er upp eitt og annað úr merkilegri tónlistarsögu Akureyrar.  

Þetta fyrra félag lagðist niður snemma árið 1913 og nýtt félag var ekki stofnað fyrr en 1937. Þremur árum fyrr fluttist til Akureyrar Haukur Stefánsson, húsamálari og listmálari, sem ólst upp í Kanada og spilað íshokkí með Fálkunum í Winnipeg. Það var fyrir hans orð, segir Jón í bókinni, að íshokkíið var á þessum árum tekið fram yfir bandí. Haukur mun hafa bent á að í íshokkíi þyrfti færri menn og minni völl. Þeir urðu vinir, Haukur og Gunnar Thorarensen, sem var mikil driffjöður í skautastarfi í bænum og frumkvöðull að stofnun félagsins 1937 ásamt Kristjáni Geirmundssyni og Ágústi Ásgrímssyni.

Jón Hjaltason segir að með Gunnari, Kristjáni og Ágústi hafi Akureyrar eignast fyrstu skautastjörnurnar og þeir vakið undrun og aðdáun ungu kynslóðarinnar. Jón vitnar í æviminningar Richardts Ryel: „Á skautasvellinu áttu Innbæingar tvö stórstirni, þá Gústa og Gunnar (Thor). En þegar þeir léku listir sínar hættu aðrir að sýna sig.“

Fyrsta skautamót hins nýja félags var haldið sunnudaginn 30. mars 1941, í Stórhólma sem kallaður var; austan við svæðið þar sem nú er Akureyrarflugvöllur, norðan við gamla veginn yfir í Vaðlaheiði – á milli vestustu og miðbrúarinnar yfir Eyjafjarðará.

Á mótinu kepptu menn í hraðhlaupi, sýndur var skautadans og þá fór fram fyrsti opinberi íshokkíleikurinn á Íslandi. A-lið Skautafélags Akureyrar sigraði þá B-lið félagsins 4:2. Meðfylgjandi mynd eru úr þeim leik.