Fara í efni
KA

17. mark Nökkva Þeys í sumar – MYNDIR

Nökkvi Þeyr Þórisson og Hallgrímur Mar Steingrímsson, markahæsti KA-maðurinn í sögu efstu deildar, fagna marki þess fyrrnefnda í gær. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Nökkvi Þeyr Þórisson gerði seinna mark KA í 3:2 tapinu gegn Víkingi í gær og er lang markahæstur í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Hann hefur nú gert 17 mörk í 19 leikjum en þeir næstu hafa gert 12 mörk; Framarinn Guðmundur Magnússon og Ísak Snær Þorvaldsson, leikmaður Breiðabliks.

Mark Nökkva í gær var glæsilegt og uppskriftin kunnugleg; tilþrif sem þessi eru nánast orðin vörumerki hans. Nökkvi náði boltanum af Helga Guðjónssyni vinstra megin á miðjum vallarhelmingi gestaliðsins, lék fram kantinn og inn að vítateigslínunni þar sem hann hleypti af. Boltinn fór í sveig yfir markvörðinn og hafnaði efst í horninu fjær.

Nökkvi og félagar hans fögnuðu að vonum innilega, enda KA komið 2:1 yfir. Markaskorarinn hugðist í hita augnabliksins svipta sér úr treyjunni þegar hann tók á rás í átt að áhorfendastúkunni með samherjana á hælunum, en hætti snarlega við; hefur líklega munað að einu verðlaunin fyrir það er gult spjald frá dómaranum! Sjáið myndasyrpu af markinu og fögnuðinum hér að neðan.

_ _ _

MARKAMETIÐ
Markametið í efstu deild Íslandsmótsins er 19 mörk; Pétur Pétursson náði þeim fjölda fyrstur árið 1978 þegar 10 lið léku í deildinni. Nokkrir hafa jafnað met Péturs. Þessir hafa skorað 19 mörk á einu Íslandsmóti:

  • 1978 Pétur Pétursson, ÍA (10 liða deild)
  • 1986 Guðmundur Torfason, Fram (10 liða deild)
  • 1993 Þórður Guðjónsson, ÍA (10 liða deild)
  • 1997 Tryggvi Guðmundsson, ÍBV (10 liða deild)
  • 2017 Andri Rúnar Bjarnason, Grindavík (12 liða deild)
  • Til gamans má nefna að KR-ingurinn Þórólfur Beck gerði 16 mörk í átta leikjum árið 1961. Þá voru aðeins sex lið í deildinni.
  • Valsarinn Hermann Gunnarsson, hinn eini sanni Hemmi Gunn, bætti met Þórólfs þegar hann gerði 17 mörk sumarið árið 1973. Þá voru liðin í efstu deild orðin átta.

_ _ _