Fara í efni
Jóladagatalið 2021

Það á að gefa börnum brauð að bíta í á jólunum

Magna Oddsdóttir steikir laufabrauð í Kristjánsbakaríi. Ljósmyndasafn Dags.

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

18. desember – Allt í baksturinn?

Það á að gefa börnum brauð að bíta í á jólunum segir í kvæðinu. Jólabrauðhleifar eru þekktir um víða veröld. Efni til brauðgerðar var af skornum skammti á Íslandi lengst af og brauð ekki dagleg neysluvara andi eins og erlendis. Hins vegar var bakað þegar mikið stóð til. Þannig var brauð notað til gjafa. Ekki amalegt að fá brauð bakað á brauðmóti eins og þessum, sem myndir eru af hér að neðan. Deiginu er þrýst á plötuna og þegar það bakast verður skreytingin efst á brauðhleifnum. Algengt er að á mótunum standi útskorið Gefið börnum brauð eða Drottinn blessi brauðið.

Laufabrauð er einnig fagurlega skreytt þó deila megi um hvort það sé brauð eða kex. Laufabrauðsgerð á sér langa hefð á Norðurlandi og hefur færst í vöxt síðustu árin um land allt. Margir þekkja laufabrauðið frá Kristjánsbakarí sem hefur framleitt bæði ósteikt og steikt laufabrauð um áratugaskeið. Í laufabrauðshefðinni birtist bæði hveitiskortur og nægjusemin sem einkenndi líf landsmanna fyrr á tíð. Þá geymast kökurnar vel og lengi. Kökurnar eru næfurþunnar og stundum talað um að hægt sé að lesa í gegnum þær. Þær eru hins vegar fagurlega útskornar margar hverjar. Þar eiga margir sitt hefðbundna skraut sem þeir skera út árlega.

Ekki er vitað hvenær laufabrauð kom til sögunnar. Elsta heimildin er í orðabók Jóns Ólafssonar frá Grunnavík frá fyrri hluta 18. aldar og í fyrstu matreiðslubókinni sem út kom á íslensku, Einfalt matreiðslu vasakver fyrir heldri manna húsfreyjur frá 1800.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla.

Myndir: Gísli Ólafsson, Gunnlaugur P. Kristinsson.