Fara í efni
Jóladagatalið 2021

Gígja Hólmgeirsdóttir dagskrárgerðarkona

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

17. desember – Gígja Hólmgeirsdóttir, dagskrárgerðarkona á RÚV

Hátíðlegustu jól sem ég hef upplifað

Í desember á ég það til að fara á pínu yfirsnúning. Svo margt sem þarf að gera og muna eftir, allskonar to do listar skrifaðir. Muna eftir fínufatadeginum, leynivinaleiknum, öllum samverustundunum og heyrðu, það eru fimm jólahlaðborð fram undan og reyndu nú að muna að vera loksins tímanlega í að kaupa jólagjafirnar, helst á einhverjum geggjuðum afslætti. Þegar stressið er orðið krítískt finnst mér gott að draga aðeins andann og rifja upp ein mín eftirminnilegustu jól. 

Þá tók við öðruvísi aðventa en vanalega, þegar dagarnir fóru í að skjótast á spítalann öllum stundum

Það var nefnilega í byrjun desember fyrir nokkrum árum að fjölskyldumeðlimur varð óvænt veikur. Veikindin versnuðu og að lokum varð spítalavist það eina í stöðunni. Þá tók við öðruvísi aðventa en vanalega, þegar dagarnir fóru í að skjótast á spítalann öllum stundum á milli þess sem mætt var í vinnu, gjafir keyptar og hlutir græjaðir. Alltaf vonuðum við að læknarnir myndu ná tökum á þessum skyndilega sjúkdómi sem hafði skotið upp kollinum.

Þá ákvað ég að setja nokkra pakka og smá jólaskraut niður í tösku, fór í jólafötin og keyrði niður á Landspítala.

En batinn var hægur, aðventan leið og allt í einu var kominn aðfangadagur. Þá um morguninn vonuðum við að læknarnir myndu samþykkja heimferðarleyfi, allavega svona rétt yfir hátíðlegustu stundina, en því miður gekk það ekki. Þá ákvað ég að setja nokkra pakka og smá jólaskraut niður í tösku, fór í jólafötin og keyrði niður á Landspítala.

Í minningunni var kalt þennan aðfangadag og þess vegna var gott að koma inn í hlýjuna á spítalanum. Ég man að ég flýtti mér, með fangið fullt af einhverjum pökkum og litlu gervijólatré undir handleggnum. Man líka að mér þótti þetta erfitt og ég var sorgmædd yfir þessu öllu. Svo kom ég inn á deildina, ljósin voru dempuð, það voru mandarínur og konfekt í skálum. Þarna var líka einhver friður.

Við opnuðum einn og einn pakka á milli þess sem teknir voru lúrar, koddum hagrætt og spjallað við starfsfólkið.

Ég settist í gestastólinn við spítalarúmið og það tók mig tíma að finna hjá mér þessa kyrrð sem ég upplifði allt í kringum mig. Einhvern veginn náði ég þó að fínstilla mig inn í andartakið. Svo hlustuðum við á þögnina í útvarpinu. Kirkjuklukkurnar hringdu inn jólin og við horfðum á snjókomuna út um gluggann. Opnuðum einn og einn pakka á milli þess sem teknir voru lúrar, koddum hagrætt og spjallað við starfsfólkið. Svo var sjúklingurinn minn á fljótandi fæði og þess vegna ákvað ég að borða bara seinna um kvöldið. Í staðinn vorum við bara saman í algjörri ró.

Jólin koma, þrátt fyrir allt

Þó þessar kringumstæður hafi ekki verið eftirsóknarverðar, því það er sjaldnast gaman þegar einhver liggur á spítala, þá hugsa ég oft til þessara jóla. Af því þetta eru hátíðlegustu jól sem ég hef upplifað og þau minna mig alltaf á að jólin koma hvernig sem allt er. Við þurfum bara að staldra við og finna fyrir hátíðleikanum í andartakinu.

Í lokin vil ég svo senda kærar jólakveðjur til allra þeirra sem manna heilbrigðisstofnanir landsins yfir hátíðirnar. Þið eruð dýrmæt.