Enginn vill fara í jólaköttinn
Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri
4. desember – Að klæða köttinn
Jólakötturinn er skemmtilega skrítið dýr. Enginn vill fara í jólaköttinn, þ.e. að fá ekki nýja flík fyrir jólin. Hér fyrir norðan var líka talað um að klæða köttinn. Merking orðtaksins er óljós en hefur einhver séð kött skipta um feld? Líklega er merkingin sú að ef viðkomandi fær ekki nýja flík sé hann eins og kötturinn, í sömu fötunum.
Til að sleppa við köttinn var til einföld lausn. Nýjir leppar í skóna.
Jólakötturinn á sér bræður og systur sem einnig voru notaðar sem barnafælur. Í Noregi er óvætturinn geit eða hafur, í Svíþjóð og Eystrasaltslöndunum bolaköttur. Þar sem geitur voru fáséðar á Íslandi lengi vel var kattarímyndin líklegri til árangurs.
Hér geit, hafur eða huðna, á skeið úr Davíðshúsi. Skeiðin er á ruslaraskáp skáldsins og er ansi jólaleg. Á hana er að öllum líkindum brennt jol 55. Mögulega er hún norsk, kannski gjöf frá norskum vinum?
Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla.