Fara í efni
Jákvæð sálfræði

Að sjá raunveruleikann – Þrjú skref í átt að núvitund

NÚVITUND - 2

Í fyrsta pistli mínum um núvitund setti ég fram þessa skilgreiningu Jon Kabat-Zinn um núvitund:

„Vitundin sem myndast við að beina athyglinni með ásetningi og án þess að dæma, að augnablikinu eða núinu á eins opinn hátt og manni er mögulegt.“

Í þessum pistli langar mig til að skoða betur nokkra viðhorfsþætti sem er æskilegt að við skiljum til að okkur geti tekist þetta ætlunarverk að auka núvitund í lífi okkar.

Fordómaleysi

„Án þess að dæma“ – Hvað þýðir það? Öll höfum við fordóma, og öll dæmum við. Í lýsingunni hér að ofan þegar við tölum um að beina athyglinni að augnablikinu, þá í langflestum tilfellum fellum við einhverja dóma um það augnablik á því augnabliki. Augnablikið í okkar huga er ýmist jákvætt, neikvætt eða hlutlaust. En ef við vinnum samkvæmt þessari skilgreiningu opnast kannski fyrir okkur hversu dugleg við erum við það að fella dóma.

Þá er einmitt mikilvægt að við dæmum okkur ekki fyrir að dæma augnablikið. Já, hluti af því að reyna að lifa án þess að dæma alla mögulega hluti, er að dæma ekki okkur sjálf fyrir að dæma alla mögulega hluti.

Það er ágætt að verða meðvitaðri um það að við viljum helst stimpla aðstæður og augnablik sem góð eða vond. Sú meðvitund opnar huga okkar fyrir raunveruleikanum eins og hann er, og gerir okkur hugsanlega mögulegt að takast á við vandamál á opnari og meira skapandi hátt frekar en með fordómum og gömlum vana. Við áttum okkur á því að hlutirnir eru ekki alltaf eins og þeir virðast vera og að í fæstum tilfellum vitum við alla söguna. Þetta er eitt af grundvallaratriðum núvitundarinnar.

Að sjálfsögðu þýðir þetta ekki að við eigum aldrei að taka afstöðu. En mjög oft er það óþarfi að dæma hvert og eitt augnablik um leið og það á sér stað, og hefur ekkert jákvætt í för með sér.

Þolinmæði

Fegurðin í því að gefa þolinmæðinni tækifæri er að við gerum okkur betur grein fyrir því hvað við erum í raun óþolinmóð. Alloft er staðan þannig að við viljum komast að einhverri lokaniðurstöðu, og það sem stendur á milli augnabliksins núna og þeirrar lokaniðurstöðu sem við viljum fá truflar okkur. Þetta gerir það að verkum að við njótum ekki augnabliksins núna af því að við erum að bíða eftir öðru augnabliki síðar sem við teljum að verði á einhvern hátt betra. Fórnarlömb þessarar óþolinmæði okkar eru svo oftar en ekki fólkið sem við búum með og elskum mest. Það getur verið lítilsvirðandi fyrir það fólk að gera svona óþolinmæði að vana hjá okkur. Þetta þýðir að það að gera sér grein fyrir óþolinmæði sinni og vinna aðeins í því að minnka hana gerir ekki eingöngu okkur sjálfum gagn, heldur einnig fólkinu í kringum okkur. Við gefum fólkinu okkar meiri athygli og tíma núna, en núna er einmitt eini tíminn sem við raunverulega höfum.

En þetta þýðir ekki að við þurfum að vera alltaf sátt við hlutina eins og þeir eru. Flest viljum við einhverjar breytingar, og oft eru breytingar gagnlegar og jafnvel nauðsynlegar. En stundum er líka gagnlegt að muna eftir því að við getum ekki ýtt fljótinu hraðar en það fer náttúrulega.

Þolinmæði er því eiginleiki, sem nú á dögum gríðarlega hraðra samskipta og frétta, veitir okkur nokkurs konar ónæmi fyrir þörfinni að komast alltaf strax eitthvað annað. Hugsanlega er fínt að komast eitthvað annað, en núna er ég hér, og við vinnum út frá því.

Við viljum ekki þvinga okkur til að verða þolinmóð, samanber gömlu góðu bænina “Guð, gefðu mér þolinmæði NÚNA!”, en ef við í núvitund áttum okkur á óþolinmæði okkar, og viljum skoða möguleikann á því að sú óþolinmæði eigi ekki alltaf við, þá eru allar líkur á því að við verðum þolinmóðari og sáttari við núið.

Opið hugarfar byrjanda

Stundum er sagt að til að veita augnablikinu athygli „á eins opinn hátt og manni er mögulegt“ þurfi meðvitað að temja sér hugarfar byrjanda. Hugsunin er sú að í huga byrjanda eru fjölmargir möguleikar opnir, en í huga sérfræðingsins eru möguleikarnir afar fáir. Þegar við lítum svo á að við séum sérfræðingar í öllu og vitum nánast allt sem þarf að vita þá hindrar það okkur í því að sjá og taka eftir því sem er hér og nú, þar sem allt sem verður á vegi okkar fer í gegnum gleraugu sem segja “Ég veit hvað þetta er”. Í mörgum tilfellum vitum við það bara alls ekki. Við teljum okkur vita, byggt á hugsunum okkar, og byggt á þeim sögum sem við höfum búið til utan um það sem okkur finnst oft á tíðum hvað mikilvægast, þ.e.a.s. okkur sjálf. Hugarfar byrjanda er bara það að minna okkur á að slappa aðeins af, við vitum ekki eins mikið og við teljum. Í raun er það er gríðarlega frelsandi fyrir okkur að losna undan oki þess að þykjast vita hlutina, ekki bara í núvitund, heldur líka í vísindum, listsköpun og í okkar daglega lífi.

Þessir þættir sem ég hef nefnt í dag eru allir tiltölulega einfaldir, en á sama tíma nokkuð erfiðir að tileinka sér. Það er a.m.k. mín reynsla. En ég tel að það sé okkur öllum hollt að velta því fyrir okkur hvort þeir geti hugsanlega hjálpað okkur til að taka betur eftir augnablikinu hér og nú.

Haukar Pálmason er tónlistarmaður, tölvunarfræðingur og áhugamaður um núvitund.

Árangur

Haukur Pálmason skrifar
04. desember 2023 | kl. 17:45

Innihaldsríkt líf

Haukur Pálmason skrifar
16. október 2023 | kl. 06:00

Jákvæð tengsl

Haukur Pálmason skrifar
27. júní 2023 | kl. 14:30

Flæði

Haukur Pálmason skrifar
29. maí 2023 | kl. 11:00

Útvíkkun og uppbygging

Haukur Pálmason skrifar
27. desember 2022 | kl. 13:15

Blómstrandi líf

Haukur Pálmason skrifar
04. nóvember 2022 | kl. 06:00