Fara í efni
Íþróttamaður Akureyrar

Þórsarar eru í erfiðri stöðu eftir annað tap

Tim Dalger tilkynnir brottför á flugi 003 að körfu Fjölnismanna. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar eru lentir 0-2 undir í einvíginu við Fjölni í umspili 1. deildar karla í körfuknattleik eftir fimm stiga tap á heimavelli í öðrum leik liðanna sem fram fór á Akureyri í kvöld. Þriðji leikurinn í einvíginu fer fram í Grafarvoginum á föstudagskvöld og þar verða Þórsarar að vinna því annars eru þeir á leið í sumarfrí.

Þórsarar komu af krafti inn í leikinn og Andrius Globys byrjaði á því að raða niður þristunum, setti fyrstu fimm þriggja stiga skotin ofan í og liðið skoraði úr sjö af fyrstu átta þriggja stiga skotunum. Næstu 13 þriggja stiga skot Þórsara geiguðu hins vegar. Það var síðan rétt í restina sem þriggja stiga skotin fóru að detta aftur, en það kom of seint.

Fyrsti leikhluti jafn, en sveiflukenndur. Andrius kominn í 17 stig eftir fyrsta leikhlutann, en honum tókst þó ekki að halda áfram á sömu braut og skoraði ekkert í öðrum leikhluta. Gestirnir náðu frumkvæðinu og leiddu með sex stigum eftir fyrri hálfleikinn, 47-53.

Andrius Globys reynir að verjast atlögu Alstons Harris að körfu Þórsara í leiknum í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Byrjunin á seinni hálfleiknum var afleit hjá Þórsliðinu, ekkert gekk upp og Fjölnir skoraði 14 stig á móti einu stigi Þórsara á fyrstu fjórum mínútum seinni hálfleiksins. Munurinn varð mestur 21 stig um miðjan þriðja leikhlutann, en Þórsarar neituðu að gefast upp og byrjuðu að saxa á forskot gestanna. 

Munurinn var kominn niður í tíu stig fyrir lokafjórðunginn og fljótlega niður í sjö stig, en Fjölnismenn stóðust á endanum öll áhlaup Þórsara og hleyptu þeim ekki nær. Þegar upp var staðið höfðu Fjölnismenn nýtt rúmlega helming þriggja stiga skota sinna og skoruðu samtals 45 stig af 107 utan línunnar. 

Tim Dalger var stigahæstur Þórsara með 40 stig, en Andrius Globys skoraði 29. Hjá Fjölni var það Lewis Junior Diankulu sem var stigahæstur með 27 stig, en Sigvaldi Eggertsson kom næstur með 26 stig. Bæði liðin fóru yfir 100 stigin þegar upp var staðið og fráköstin urðu samtals 100, skiptust hnífjafnt á liðin, 50/50. Andrius Globys tók 14 fráköst og Tim Dalger 13, en hann var með 44 framlagsstig. Tim Dalger og Reynir Bjarkan Róbertsson stálu báðir þremur boltum.

Helstu tölur einstakra leikmanna Þórs:

  • Tim Dalger 40 - 13 - - 44 framlagsstig
  • Andrius Globys 29 - 14 - 3
  • Reynir Bjarkan Róbertsson 17 - 5 - 1 
  • Páll Nóel Hjálmarsson 6 - 1 - 0
  • Orri Már Svavarsson 5 - 4 - 1
  • Veigar Örn Svavarsson 4 - 4 - 2
  • Smári Jónsson 2 - 1 - 4
  • Andri Már Jóhannesson 1 - 2 - 0

Þriðji leikurinn í einvíginu fer fram í Dalhúsum í Grafarvogi föstudagskvöldið 4. apríl og hefst kl. 19:15.