Fara í efni
Íþróttamaður Akureyrar

Naumur SA-sigur í Toppdeild kvenna

Silvía Rán Björgvinsdóttir (mynd úr safni). Við fyrstu sýn virtist sem hún hefði skorað mark með skoti fyrir aftan markið í leik kvöldsins, en þegar upp var staðið var markið skráð á liðsfélaga hennar, Herborgu Rut Geirsdóttur. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Kvennalið Skautafélags Akureyrar í íshokkí vann nauman sigur á liði Skautafélags Reykjavíkur í leik sem fram fór í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld, 2-1. SA nartar því í hælana á Fjölni sem hefur eins stigs forystu á toppi Toppdeildar kvenna.

Herborg Rut Geirsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins eftir tæplega sjö mínútna leik og Anna Sonja Ágústsdóttir bætti við öðru marki seint í fyrstu lotunni. Mark Herborgar var nokkuð skondið því í fyrstu virtist eins og Silvía Rán Björgvinsdóttir hefði skorað markið með skoti fyrir aftan markið, eins undarlega og það hljómar. Silvía Rán átti þá skot að marki sem var varið, náði sjálf pökknum aftur og skautaði aftur fyrir markið, reyndi sendingu á Herborgu sem kom skautandi að markinu. Pökkurinn virtist hafa farið af markverðinum og í markið, en þegar upp var staðið var markið skráð á Herborgu því hún hefur náð að snerta pökkinn og koma honum í markið.


Þessi skjáskot úr YouTube-útsendingu SA TV sýna aðdragandan að fyrra marki SA. Á efri myndinni er Silvía að skjóta að marki. Skotið var varið, hún náði sjálf pökknum og skautaði með hann aftur fyrir markið og á neðri myndinni sendir hún pökkinn út á Herborgu Rut Geirsdóttur, sem er skráð fyrir markinu, en við fyrstu sýn var eins og Silvía Rán hefði skorað fyrir aftan markið og pökkurinn haft viðkomu í markverði SR. Ef smellt er á myndina opnast upptaka af leiknum þegar þetta mark var skorað. 

Ekkert var skorað í annarri lotu, en gestirnir í SR hleyptu spennu í leikinn þegar þær minnkuðu muninn í 2-1 og enn voru tíu mínútur til leiksloka. Síðustu 1:40 mínútur leiksins lék SA-liðið einum færri og notuðu SR-ingar þá tækifærið, tóku markmanninn sinn út af til að fjölga í sókninni. Það dugði þeim þó ekki til að skora og sigurinn því heimakvenna, 2-1.

SA

Mörk/stoðsendingar: Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/0, Anna Sonja Ágústsdóttir 1/0, Eyrún Garðarsdóttir 0/1, Aðalheiður Ragnarsdóttir 0/1.
Varin skot: Shawlee Gaudreault 30 (96,8%).
Refsimínútur: 8.

SR

Mörk/stoðsendingar: Gunnborg Jóhannsdóttir 1/0.
Varin skot: Andrea Bachmann 27 (93,1%).
Refsimínútur: 6.

Með sigrinum í kvöld fer lið SA í 14 stig úr sjö leikjum og er einu stigi á eftir Fjölni, sem á leik til góða. SR er á botninum með eitt stig. 

Upptöku af leiknum má sjá í spilaranum hér að neðan: