Fara í efni
Íslandskortasafn Schulte

Rætur hugmyndarinnar um Sköpun bernskunnar

Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, listakona og hugmyndasmiður að 'Sköpun bernskunnar'. Mynd: Listasafnið á Akureyri

Sköpun bernskunnar er árleg sýning í Listasafninu á Akureyri. Þar mætast fullorðnir og börn í listsköpun, en æska beggja kynslóða ræður ferðinni. Um síðastliðna helgi var opnun á Sköpun Bernskunnar 2025, en saga verkefnisins nær aftur til ársins 2012. Þá var það listakonan og fyrrum fræðslufulltrúi á Listasafninu, Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, sem fékk hugmyndina og bjó henni góðan grunn. Blaðamaður Akureyri.net settist niður með Pálínu, eins og hún er oftast kölluð, í betri stofunni í Brekkugötunni, þar sem Pálína býr ásamt eiginmanni sínum, listamanninum Joris Rademaker. 

Þetta er fyrri hluti viðtalsins við Pálínu.

Á MORGUNSKÖPUN BERNSKUNNAR LITAR LÍFIÐ TIL FRAMBÚÐAR

Pálína er nýlega komin á eftirlaun og hætt að starfa hjá Listasafninu. „Ég afhenti Heiðu Björk Vilhjálmsdóttur keflið árið 2024. Hún sá um sýningarstjórn Sköpun bernskunnar í ár með miklum sóma, en hún hafði verið með mér í þessu í nokkur ár áður en ég hætti,“ segir Pálína. „En sagan af því, hvernig hugmyndin fæddist byrjar eiginlega á annari listasýningu. Ég var í stjórn Myndlistarfélagsins með Joris þegar ég sá mjög fallega sýningu Brynhildar Kristinsdóttur og Þórarins Blöndal í tenglum við börn. Þórarinn hafði komið með gömul leikföng og gömul föt, en það var eitthvað sem snerti mig djúpt, að sjá þessi föt. Brynhildur hafði bætt tréleikföngum og máluðum myndum eftir nemendur sína á sýninguna og þessi sýning hafði mikil áhrif á mig.“

 

Vegleg bók var gefin út á dögunum um sögu sýningarinnar 'Sköpun bernskunnar'. Listaverkið á forsíðunni er eftir Hrönn Einarsdóttur. Pálína segist mjög ánægð með bókina. Mynd: Listasafnið á Akureyri

Hafði nægan tíma og fullt af hugmyndum

Pálína var á milli starfa á þessum tíma, árið 2011, nýhætt að kenna íslensku fyrir útlendinga og var ekki alveg byrjuð að vinna á Listasafninu. „Ég hafði nægan tíma og fullt af hugmyndum, þannig að ég sótti um styrk hjá Eyþingi fyrir þremur verkefnum,“ segir hún. „Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir var að vinna þar á þeim tíma, en hennar hjálp í þessu umsóknarferli var ómetanleg. Eitt af þessum verkefnum var Sköpun bernskunnar og við fengum jákvætt svar. Til þess að eiga möguleika á því að fá styrk þurfti að sýna fram á samvinnu þriggja, en hjá okkur var það Myndlistarfélagið, Myndlistarskólinn og Leikfangasafnið.“ 

Ég segi stundum að sýningin hafi verið afmælisgjöf til Akureyrar

„Leikfangasafnið er afskaplega merkilegt safn, en þar hafði Guðbjörg Ringsted safnað allskonar dýrmætum leikföngum og rekið þetta safn í mörg ár,“ segir Pálína. „Í dag er það hluti af Minjasafninu, og við erum enn í samvinnu við Leikfangasafnið með sýninguna, mér finnst svo mikilvægt að hafa leikföngin. Auk þess er Guðbjörg listakona mikil og mjög gaman að hafa hana með í verkefninu. Rannveig Helgadóttir kenndi börnum myndlist í Myndlistarskólanum og þar voru gerðar ofboðslega stórar og litríkar myndir af afmælistertum, en árið sem Sköpun bernskunnar hóf göngu sína, var einmitt 150 ára afmælisár Akureyrarbæjar. Ég segi stundum að sýningin hafi verið afmælisgjöf til Akureyrar.“ Það kom á daginn að þessi gjöf hélt áfram að gefa, og er hvergi nærri hætt, en síðan 2012 er búið að setja upp nýja sýningu á hverju ári, þar sem listamenn úr ýmsum áttum mæta fulltrúum yngri kynslóðanna í bænum í listsköpun. 

 

Ungir gestir á opnun sýningar. Pálína segir að það hafi verið mikilvægt, þegar velja átti myndir í bókina, að sýna líka myndir af gestum að upplifa sýninguna. Mynd: Listasafnið á Akureyri

Sköpun kynslóðanna í bland við fræðslu

„Myndistarfélagið sá um að útvega salinn í verkefnið fyrsta árið, en sýningin hefur verið í Listasafninu frá árinu 2015 og óslitið til dagsins í dag,“ segir Pálína. „Þetta var svo skemmtileg vinna, að skapa þessa fyrstu sýningu og koma þessu í framkvæmd. Opnunin var þá í ágúst og sýningin stóð fram í september. Sýningunni lauk með fræðsludagskrá, en þá var Guðbjörg Ringsted með erindi um leikfangaframleiðslu á Akureyri áður fyrr, í kring um 1960. Þetta var mjög fróðlegur og skemmtilegur fyrirlestur. Ég hélt svo erindi um verk fullorðnu listamannanna á sýningunni og tengja verk þeirra listasögunni. Einnig var Ólafur Sveinsson með fyrirlestur um listina og að viðhalda barninu í sér í sköpuninni. Ég man ekki nákvæmlega hvernig dagskráin var, en þetta vakti athygli.“ Pálína segir að það hafi verið sérstaklega eftirminnilegt, hvað kennarar voru hrifnir af sýningunni, og eins ferðamenn sem villtust inn á ferð sinni um Akureyri. „Þeim þótti óvenjulegt að sjá sýningu þar sem listaverk eftir börn nutu sín með listaverkum fullorðinna sem tengjast æskunni.“

Fljótlega eftir sýninguna fékk Pálína starf í Listasafninu á Akureyri, sem fræðslufulltrúi. „Þegar Hlynur Hallsson byrjaði sem safnstjóri árið 2014, var hann til í að taka upp Sköpun bernskunnar þar,“ segir Pálína. „Fyrsta sýningin var í Ketilhúsinu, en við höfðum allt svæðið fyrir sýninguna. Bæði þar sem Kaktus er núna og svo salurinn og svalirnar líka. Ég bauð öllum grunn- og leikskólunum á svæðinu þáttöku, og allir voru með nema þrír. Ástæðan fyrir því var einfaldlega að þeir voru of seinir að melda sig.“ 

 

Frá opnun 'Sköpun bernskunnar' 2023. F.v. Hlynur Hallsson þáverandi safnstjóri, Pálína, listakonan Hlaðgerður Íris Björnsdóttir, Heiða Björk Vilhjálmsdóttir og akureyrski listamaðurinn Úlfur Logason. Mynd: Listasafnið á Akureyri

Í tilefni af því, að í ár var sýningin haldin í tíunda sinn í Listasafninu, var gefin út bók þar sem farið er yfir sögu sýninganna og hvert ár tekið fyrir með myndum og texta. „Við fengum stóran styrk frá Safnaráði og ákváðum því að skrásetja sýningarnar hingað til með veglegum hætti. Við eyddum miklum tíma í að gera þessa bók, en auk texta og mynda af verkunum, reyndum við líka að sýna myndir frá opnunum og draga upp mynd af því þegar gestir safnsins voru að upplifa verkin,“ segir Pálína. „Sum börnin þekktu jafnvel ekki verkin sín aftur á opnunum, en það hefur yfirleitt verið ofboðslega vel mætt á sýningar Sköpun bernskunnar og gleðin við völd.“ 

Listasafnið á Akureyri fyrst til þess að setja verk eftir börn í öndvegi

„Áður hafði ekki verið mikill áhugi fyrir því að setja listaverk eftir börn í sali listasafna,“ segir Pálína. „Ef börn fengu að taka þátt var því oft stýrt mjög af fullorðna fólkinu. Oft mjög flott, en ekki það sem við höfum verið að vinna með. Listasafnið á Akureyri var því fyrst til þess að taka inn verk eftir börn sem stóran hluta af sýningu.“ Pálína segir að fyrstu sýningarnar hafi boðið upp á listaverk frá tíu fullorðnum listamönnum, fimm körlum og fimm konum, í bland við verk barnanna. Þessum fjölda hefur svo farið fækkandi með árunum, þegar sú jákvæða breyting varð, að listafólk fór að fá borgað fyrir þáttöku. Á sýningunni 2025 er t.a.m. bara ein listakona, myndhöggvarinn Sólveig Baldursdóttir. 

Á hverju ári hefur verið þema í sýningunni, en ég hef lagt mikla áherslu á listrænt frelsi allra listamanna, á öllum aldri

„Á þeim tíma, sem Sköpun bernskunnar byrjaði, þekkti maður varla það hugtak, að fá borgað fyrir að sýna,“ segir Pálína. „En annað árið í Listasafninu, þá 2016, voru fjórir listamenn með og öll fengu smá þóknun. Svo tek ég fram að það hefur frá upphafi verið lagt mikið upp úr því að hafa kynjahlutföllin jöfn, þarna voru tvær konur og tveir karlar að taka þátt. Við höfum blandað saman listafólki úr heimabyggð og annarsstaðar frá. Á hverju ári hefur verið þema í sýningunni, en ég hef lagt mikla áherslu á listrænt frelsi allra listamanna, á öllum aldri. Að það sé ekki of niðurnjörvað, hvað á að gera.“ Árið 2018 var farið að greiða listamönnum samkvæmt gjaldskrá og eftir það voru alltaf einn listamaður að sunnan og einn að norðan, einn karl og ein kona.

Verkefnið fléttað inn í listakennslu skólanna

Fyrirkomulagið hefur verið þannig að á hverju ári er leik- og grunnskólum á Akureyri boðið að taka þátt í sýningunni, ekki öllum í einu heldur mismunandi á milli ára. „Ég hef reynt að hafa það þannig eftir fremsta megni að myndlistarkennararnir í skólunum hafi eins frjálsar hendur og mögulegt er,“ segir Pálína. „Þetta átti heldur alls ekki að vera aukavinna fyrir kennarana, heldur þannig að hægt væri að flétta þetta inn í kennsluna. Ég segi kennrunum hvaða fullorðnu listamenn taka þátt, og hvert þemað sé, en svo hafa þau algjört frelsi með það sem skapað er í skólastofunni,“ segir Pálína. Dæmi um þemu sem hafa verið er t.d. 'manneskjan öll', 'fuglar og önnur dýr', 'hús-heimili-skjól' og 'gróður jarðar'.

 

Pálína segir að það séu alltaf jólin fyrir sér, að sjá hvað krakkarnir hafa skapað fyrir sýninguna. Hér eru skemmtilegar fígúrur sem krakkar í Brekkuskóla bjuggu til fyrir sýninguna árið 2023. Mynd: Brynhildur Kristinsdóttir, kennari barnanna.

Misjafnt hve verk listamannanna og barnanna kallast á

„Við höfum alltaf verið svo spennt, að sjá hvað kemur frá börnunum á sýninguna,“ segir Pálína. „Þetta voru eiginlega eins og jólin fyrir mér, að sjá hvað kemur upp úr pakkanum og sjá hvernig listaverkin blandast svo saman. Ég er svo ánægð með, hvað við fengum líka alltaf góða listamenn til þess að sýna með börnunum, oft á tíðum mjög vel þekkta og vinsæla listamenn. Ég minnist þess þegar Eggert Pétursson mætti hérna á Covid-tíma. Þá vorum við með listasmiðju sem Fríða Karlsdóttir stýrði inn í salnum, en verkin hans voru komin upp og hvert þeirra kostar á við bíl. Hann hafði fengið mörg þeirra lánuð frá fólki sem hafði keypt af honum af því að hann framleiðir ekki mörg verk á ári. Það snerti mig virkilega hvað hann hafði mikla ánægju af þessu. Verk skólanna kölluðust svo fallega á við þessar myndir, ég gleymi ekki verki Síðuskóla sem var blómafoss sem féll frá svölunum niður í salinn.“ Í þessu tilfelli höfðu börnin fengið að sjá listaverk fullorðnu listamannanna áður en þau gerðu sín verk, en Pálína segir að það sé alls ekki alltaf þannig, kennarar barnanna hafi alveg frjálsar hendur varðandi það. 

 

Þetta var fyrri hlutinn af viðtalinu við Pálínu um Sköpun bernskunnar. Á morgun birtist seinni hlutinn, en þar kynnumst við listakonunni hugmyndaríku betur og forvitnumst um uppruna hennar og bernskusköpun.

Á MORGUNSKÖPUN BERNSKUNNAR LITAR LÍFIÐ TIL FRAMBÚÐAR 

 

Listaverk Siggu Bjargar Sigurðardóttur skoðuð gaumgæfilega. Sköpun bernskunnar 2018. Mynd: Listasafnið á Akureyri