Fara í efni
Íshokkí

„Við vorum betri í öllum leikjunum“

„Mér fannst við betri í í öllum þremur leikjunum. Síðustu 10 mínúturnar í þessum voru að vísu jafnar og hjartað var farið að slá óvenju hratt!“ sagði Rúnar Eff Rúnarsson, þjálfari íshokkíliðs Skautafélags Akureyrar eftir að Íslandsbikarinn fór á loft í gærkvöldi. SA vann þá Fjölni 3:0 og úrslitarimmuna sömuleiðis 3:0.

Þetta er annar Íslandsbikarinn sem Rúnar hampar á nokkrum dögum. Hann þjálfar líka kvennalið SA sem varð meistari á laugardaginn var.

„Strákarnir í Fjölni voru ótrúlega skynsamir í þessum leikjum og spiluðu varnarleikinn rosalega vel. Þeir sóttu ekki mikið; við pressuðum á þá alla leikina og þeir voru í bölvuðum vandræðum með okkur, en okkur gekk illa að skora. Markmaðurinn [Atli Valdimarsson] varði eins og berskerkur í öllum leikjunum og þeir hentu sér fyrir öll skot. Það er mikið hjarta í þessu Fjölnisliði – en hjartað á Akureyri er enn stærra!“

Þegar þjálfarinn er spurður hverju hann þakki helst sigurinn stendur ekki á svari: „Strákarnir eru bara geggjaðir! Þeir sýndu frábæra baráttu, þeir hægðu aldrei á sér þótt komið væri fram í þriðja leik; pressuðu og pressuðu endalaust. Það er mikill kraftur í þeim, þetta er frábær mannskapur og liðsheildin er frábær. Það leggja sig alltaf allir fram eins og þeir mögulega geta; við elskum allir þetta hús og þennan klúbb.“

Rúnar Eff Rúnarsson, þjálfari SA, átti sér einskis ills von þar sem hann var í sjónvarpsviðtali við Óðin Svan Óðinsson, fréttamann RÚV, þegar Jóhann Leifsson kom askvaðandi og sturtaði yfir hann ísköldu vatni úr stórri fötu! Skemmtilegur siður íshokkímanna að fara svona með þjálfarann þegar sigur er í höfn! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.