Fara í efni
Íshokkí

Úrslitaeinvígi karlaliða SA og SR hefst í kvöld

Andri Mikaelsson, fyrirliði SA, stefnir að því að hampa Íslandsbikarnum á ný eftir að hafa „lánað“ hann suður í eitt ár ... Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Hver verður Íslandsmeistari?“ Þannig er spurt á auglýsingum sem birst hafa undanfarna daga og vísa til þess að einvígið um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí er að hefjast. Eftir að hafa „lánað“ Íslandsbikarinn suður í fyrra er engum blöðum um það að fletta að SA Víkingar hyggjast endurheimta titilinn og svara þessari spurningu. Það eru karlalið Skautafélags Akureyrar og Skautafélags Reykjavíkur sem berjast munu um titilinn, eins og í fyrra. Reykvíkingar hirtu þá titilinn með sigri í oddaleik í Skautahöllinni á Akureyri. 

Fyrsti leikur í einvígi karlaliða SA og SR fer fram í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld og hefst kl. 19:30. Bæði lið mæta með fullskipaðan hóp, fullar fjórar línur auk markvarða, eins og sjá má á leikmannalistunum. Akureyringar höfðu mikla yfirburði í deildarkeppninni í vetur og tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í byrjun febrúar. Þeir enduðu deildarkeppnina með 64 stig, SR náði í 45 og Fjölnir 35 - sjá lokastöðuna hér.

Von á markaveislu?

Þessi lið mættust átta sinnum í deildinni í vetur. SA Víkingar höfðu betur í sex leikjum, en SR-ingar í tveimur. Báðir sigrar SR komu eftir áramót. Eins og sjá má á listanum hér að neðan var mikið skorað í öllum leikjunum, eða að meðaltali rúmlega 9,6 mörk í leik. SA Víkingar skoruðu 40 mörk í þessum viðureignum, gegn 37 mörkum SR-inga.

Annar leikur liðanna fer fram í Skautahöllinni í Reykjavík á fimmtudagskvöld og sá þriðji hér á Akureyri á laugardag. Vinna þarf þrjá leiki í einvíginu til að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Ef þarf þá verður fjórði leikurinn í Reykjavík þriðjudaginn 26. og oddaleikur á Akureyri fimmtudaginn 28. mars, á skírdag. Miðað við einvígið í fyrra og viðureignir liðanna í vetur má allt eins búast við fimm leikja einvígi.

Hvað sem allri tölfræði líður má búast við grjótharðri rimmu milli tveggja sterkra liða, átökum, hita og markaveislum í þeim viðureignum sem fram undan eru í einvíginu. 

Til fróðleiks eru hér úrslit leikja þessara liða í deildarkeppninni í vetur.

  • 16. september
    SA - SR 6-2
  • 28. október
    SR - SA 5-6
  • 2. nóvember
    SA - SR 6-5
  • 18. nóvember
    SR - SA 6-7
  • 9. janúar
    SR - SA 6-2
  • 25. janúar
    SA - SR 6-2
  • 17. febrúar
    SA - SR 6-4
  • 24. febrúar
    SR - SA 7-1