Fara í efni
Íshokkí

Tvíhöfði á ís og borgarar á efri hæðum

Nýja félags- og æfingaaðstaðan er á efri hæðum norðurenda Skautahallarinnar. Myndin var tekin í október. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Óhætt er að segja að veisla sé fram undan í Skautahöllinni á Akureyri um komandi helgi. Tvíhöfði í Hertz-deildunum í íshokkí og hamborgaraveisla í nýju félagsaðstöðunni fyrir leik til fjáröflunar fyrir starfið í yngri flokkum hokkídeildarinnar.

Greint var frá því nýlega þegar undirritaðir voru rekstrar- og þjónustusamningar milli Akureyrarbæjar og Skautafélags Akureyrar að nýja félagsaðstaðan sem útbúin hefur verið á efri hæðum norðurenda Skautahallarinnar verði formlega tekin í notkun um miðjan febrúar, en þar verður þó líf og fjör á laugardaginn fyrir hokkíleiki dagsins.

SA Víkingar taka á móti liði Fjölnis í Hertz-deild karla og hefst leikurinn kl. 16:45. SA og Fjölnir eigast síðan við í Hertz-deild kvenna og hefst sá leikur kl. 19:30. Fyrr um daginn, eða frá kl. 15:30, verður hamborgarasala í nýju félagsaðstöðunni og áfram í leikhléum á meðan birgðir endast, eins og það er orðað í auglýsinigunni frá foreldrafélaginu. Barnastarf hokkídeildarinnar mun njóta góðs af þessari veislu.

Akureyri.net hefur áður greint frá rekstrar- og þjónustusamningum fjögurra annarra félaga - sjá hér. Samningar milli bæjarins og SA voru undirritaðir 24. janúar. Framlag bæjarins til Skautafélags Akureyrar á þessu ári til reksturs mannvirkja:

  • Rekstrarsamningur – 33,3 milljónir króna.
  • Þjónustusamningur – 1,1 milljón króna.