Íshokkí
Þriðji úrslitaleikur SA og SR á Akureyri í dag
26.03.2023 kl. 14:30
Án efa verður hraustlega og fjörlega tekist á í Skautahöllinni á Akureyri síðdegis eins og alltaf þegar SA og SR mætast. Reykvíkingnum Bjarka Jóhannessyni hitnaði mjög í hamsi í fyrsta leiknum og lét Orra Blöndal finna til tevatnsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Þriðji úrslitaleikur Skautafélags Akureyrar og Skautafélags Reykjavíkur um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí karla verður á Akureyri í dag. Leikurinn hefst kl. 16.45.
Reykvíkingar unnu fyrsta leik úrslitarimmunnar á Akureyri en Strákarnir okkar svöruðu með glæsilegum sigri syðra í vikunni. Spennandi verður að sjá hvernig fer í dag; sigra þarf í þremur leikjum til að verða Íslandsmeistari svo mótið gæti klárast í Reykjavík á þriðjudaginn en Íslandsbikarinn fer í síðasta lagi á loft í Skautahöllinni á Akureyri næstkomandi fimmtudag.