Fara í efni
Íshokkí

Þriðji leikur í úrslitum í íshokkí kvenna í kvöld

Shawlee Gaudreault, markvörður SA, hefur reynst þeim drjúg í vetur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Kvennalið Skautafélags Akureyrar tekur á móti liði Fjölnis í þriðja leik í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í íshokkí. Leikurinn fer fram í Skautahöllinni á Akureyri og hefst kl. 19:30.

SA vann fyrsta leikinn á Akureyri á sunnudag, 3-1, en Fjölnir jafnaði einvígið í æsispennandi leik á þriðjudagskvöldið. Framlengingu og vítakeppni þurfti til að knýja fram úrslit og þar hafði Fjölnir betur í bráðabana eftir að jafnt var í vítakeppninni, 1-1, þegar bæði lið höfðu tekið fimm víti. Bæði lið skoruðu tvö mörk í leiknum sjálfum, en ekkert var skorað í framlengingunni. Markverðir liðanna voru í aðalhlutverkum í vítakeppninni. Shawlee Gaudreault, markvörður SA, varði þrjú víti, næstum fjögur, en Karitas Halldórsdóttir varði fjögur víti í marki Fjölnis.

Það er því ljóst að Íslandsbikarnum verður ekki lyft í kvöld þar sem vinna þarf þrjá leiki til að vinna einvígið. Tillaga Akureyri.net um að vinna Íslandsmeistaratitil á hlaupársdegi var felld af leikmönnum Fjölnis.