Fara í efni
Íshokkí

Þriðja viðureign SA og SR á Akureyri í dag

Góð mæting og öflugur stuðningur úr stúkunni mun skipta máli í dag eins og endranær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Karlalið Skautafélags Akureyrar í íshokkí, SA Víkingar, taka á móti SR-ingum í Skautahöllinni í dag kl. 18:00 í þriðju viðureign liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn.

  • ATH - Upphaflega átti leikurinn að hefjast kl. 16:45 en var seinkað vegna erfiðra akstursskilyrða norður.

Þrátt fyrir nokkra yfirburði í Hertz-deildinni í vetur er ekkert gefið og ekkert hægt að bóka í úrslitaeinvígi eins og þessu. Fyrstu tveir leikirnir hafa unnist á útivelli og hnífjafnt í einvíginu. SR vann eins marks sigur í Skautahöllinni á Akureyri á þriðjudag og Akureyringar svöruðu með eins marks sigri í Skautahöllinni í Laugardal á fimmtudagskvöld. 

Búast má við jafnri og spennandi viðureign í dag, með hraða, átökum og alls konar, eins og yfirleitt þegar íshokkí er annars vegar. Fjórði leikur liðanna fer fram í Laugardalnum á þriðjudagskvöld og nái annað hvort liðið ekki að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn þar verður oddaleikur á Akureyri fimmtudaginn 28. mars.