Fara í efni
Íshokkí

Tap hjá SA Víkingum eftir bráðabana

Baltasar Hjálmarsson skoraði tvö fyrstu mörk leiksins í Egilshöllinni í kvöld og átti stangarskot í stöðunni 4-4. Myndin er úr leik gegn SR í fyrra. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

SA Víkingar og Fjölnir þurftu framlengingu, vítakeppni og bráðabana til að skera útkljá hokkíleik liðanna í Hertz-deild karla í íshokkí í dag. SA Víkingar komust í 3-0 í fyrsta leikhluta, Fjölnismenn jöfnuðu í öðrum og bæði lið bættu við einu marki í þriðja leikhluta. Ekkert skorað í framlengingu, 2-2 eftir fimm umferðir í vítakeppni, en heimamenn í Grafarvoginum höfðu betur í fimmtu umferð bráðabanans.

SA Víkingar sáu um að skora mörkin í fyrsta leikhluta og náðu þriggja marka forystu. Annar leikhluti gekk ekki alveg þrautalaust fyrir sig því um miðbik hans urðu nokkrar tafir á leiknum í tensgslum við dóma þar sem dómarar leiksins þurftu tíma til að ráða ráðum sínum. Að því loknum voru samtals fimm leikmenn frá liðunum í refsiboxinu og einkenndist leikurinn af nokkrum hita milli leikmanna það sem eftir lifði leikhlutans. Ekki var þó meira skorað í öðrum leikhluta og staðan jöfn, 3-3, fyrir lokaþriðjunginn.

Fjórða mark SA Víkinga var í boði varnarmanns Fjölnis sem sendi pökkinn eint á Jóhann Má Leifsson upp við eigið mark. Jóhann þakkaði pent og kom pökknum í markið. Fjölnismenn létu það ekki trufla sig og jöfnuðu leikinn tæpum tveimur mínútum síðar. Akureyringar voru hársbreidd frá því að ná forystunni þegar Baltasar Hjálmarsson átti skot í stöng þegar sjö mínútur lifðu leiks og þegar um ein og hálf mínúta var eftir komust SA Víkingar í sókn þrír á móti einum, en tókst ekki að skora. Staðan eftir þrjá leikhluta var 4-4 og hvort liðið fékk eitt stig. Í íshokkí fá bæði liðin eitt stig fyrir jafntefli, en liðið sem vinnur í framlenginu eða vítakeppni fær aukastig.

Þá tók við framlenging. Þar er spilað þrír á þrjá upp á gullmark, eða að hámarki fimm mínútur. Framlengingin var opin og spennandi enda færri útileikmenn en í venjulegum leik. Liðunum tókst þó ekki að skora í framlengingunni og þurfti því vítakeppni til að útkljá þessa viðureign.

Fjölnir - SA 4-4 (0-3, 3-0, 1-1, 0-0, 2-2, 1-0)

  • 0-1 Baltasar Hjálmarsson (05:37). Stoðsending: Róbert Hafberg, Atli Sveinsson.
  • 0-2 Baltasar Hjálmarsson (14:15). Stoðsending: Róbert Hafberg.
  • 0-3 Unnar Hafberg Rúnarsson (15:32).
    - - -
  • 1-3 Lindon Dupljaku (22:04). Stoðsending: Falur Guðnason.
  • 2-3 Martin Svoboda (25:45). Stoðsending: Lindon Dupljaku, Viktor Svavarsson.
  • 3-3 Andri Helgason (32:45). Stoðsending: Lindon Dupljaku, Falur Guðnason.
    - - -
  • 3-4 Jóhann Már Leifsson (44:01).
  • 4-4 Lindon Dupljaku (45:46). Stoðsending: Falur Guðnason.

Þar sem enn var jafnt að lokinni framlengingu var gripið til vítakeppni. Þar náðu Akureyringar 2-1 forystu, en náðu ekki að fylgja því eftir og jafnt, 2-2, að loknum fimm vítum frá hvoru liði. Þá tók við bráðabani þar sem þurfti fimm umferðir áður en úrslitin réðust.

Unnar Hafberg Rúnarsson og Jóhann Már Leifsson skoruðu úr fyrstu tveimur vítum SA Víkinga, Viktor Örn Svavarsson skoraði úr fyrsta víti Fjölnis og Viggó Hlynsson hélt lífi í Fjölnismönnum þegar hann jafnaði í 2-2 í fimmtu umferð vítakeppninnar. Fjögur fyrstu víti hvors liðs í bráðabananum fóru forgörðum, flest varin af þeim Róberti Steingrímssyni í marki SA og Styrmi Snorrasyni í marki Fjölnis. Það var ekki fyrr en í fimmtu umferð bráðabanans sem Róbert Pálsson skoraði fyrir Fjölni, en SA Víkingar náðu ekki að svara í næsta víti og Fjölnismenn hirtu því aukastigið.

Leikskýrslan á vef ÍHÍ.

Róbert Steingrímsson varði 36 skot í marki SA, eða 87,8%. SA Víkingar fengu að dúsa í 18 mínútur í refsiboxinu, en Fjölnismenn í 26 mínútur. 

SA Víkingar eru með 16 stiga forystu á toppi Herz-deildar karla, hafa náð sér í 40 stig. SR er í 2. sæti með 24 og Fjölnir fór í 17 stig í kvöld og er í 3. sætinu.