Fara í efni
Íshokkí

Svaðilför og erfiðir leikir íshokkíkvenna

Ísland mátti sætta sig við neðsta sæti eftir þrjú töp í venjulegum leiktíma og eitt tap eftir framlengingu og vítakeppni á heimsmeistaramóti kvenna í íshokkí, deild 2 A, en keppni fór fram í Mexíkó fyrstu vikuna í apríl. Af 30 manna hópi leikmanna, þjálfara og starfsliðs voru 22 núverandi eða fyrrverandi leikmenn SA, eða sem tengjast SA og Akureyri.

Ferðalagið frá Íslandi til Mexíkó var ekki til þess fallið að létta undir með íslensku stelpunum. Vegna verkfalls var flugi liðsins aflýst og þurfti hópurinn því að seinka för um einn dag og fara í tveimur hópum. Annar hópurinn gat svo ekki tékkað inn farangurinn sinn alla leið, en lenti hins vegar í töfum – sem betur fer að segja má – svo þeim tókst að ná í töskurnar fyrir næsta flug. Hinn hópurinn missti af seinni leggnum vegna tafa og þurfti aftur að bóka nýtt flug. Á endanum skiluðu allar hokkítöskur nema ein sér á leiðar enda – sem segja má að hafi verið kraftaverk að sögn Jóns Benedikts Gíslasonar landsliðsþjálfara.

Sterkasta vígið í hokkíinu

Skautafélag Akureyrar hefur lengi verið sterkasta vígi hokkísins á Íslandi, ekki síður hjá konunum en körlunum. Það þarf því ekki að koma á óvart að meira en helmingur leikmanna landsliðsins eru núverandi leikmenn SA, samtals 12 af 22. Að auki koma fimm úr hópnum upphaflega úr röðum SA. Þjálfarinn er frá SA og fimm að auki í starfsliði landsliðsins sem koma frá Akureyri og tengjast SA á einn eða annan hátt.

Leikmenn frá SA í landsliðshópnum: Aðalheiður Ragnarsdóttir, Amanda Bjarnadóttir, Anna Sonja Ágústsdóttir, Berglind Rós Leifsdóttir, Gunnborg Petra Jóhannsdóttir, Herborg Rut Geirsdóttir, Hilma Bóel Bergsdóttir, Inga Rakel Aradóttir, Katrín Rós Björnsdóttir, María Guðrún Eiríksdóttir, Ragnhildur Kjartansdóttir, Sigrún Agatha Árnadóttir. Fimm landsliðskonur sem nú leika ýmist fyrir sunnan eða erlendis eiga einnig uppruna í hokkístarfi SA: Birta Júlía Helgudóttir, Guðrún Marín Viðarsdóttir, Kolbrún María Garðarsdóttir, Sunna Björgvinsdóttir og Teresa Snorradóttir.

Jón Benedikt Gíslason, framkvæmdastjóri Skautafélags Akureyrar og fyrrum leikmaður með karlaliði SA, er aðalþjálfari kvennalandsliðsins, en ásamt honum voru með hópnum þau Brynja Vignisdóttir liðsstjóri, Hulda Sigurðardóttir tækjastjóri (móðir Önnu Sonju landsliðskonu), Silvía Rán Björgvinsdóttir aðstoðarkona, Margrét Ýr Prebensdóttir og Ólafur Örn Þorgrímsson ljósmyndari sem öll tengjast SA og Akureyri á einn eða annan hátt.

Umfjöllun um einstaka leiki landsliðsins má finna á vefnum íshokkí.is.

Úrslit leikja

  • Ísland – Mexíkó 2-3
  • Ísland – Lettland 0-6
  • Ísland – Spánn 2-8
  • Ísland – Taívan 2-3 (framlenging)

Anna Sonja Ágústsdóttir var valin besti leikmaður Íslands í leiknum gegn Mexíkó, Gunnborg Jóhannesdóttir í leiknum gegn Lettlandi, Sunna Björgvinsdóttir í leiknum gegn Spáni og Birta Helgadóttir í leiknum gegn Taívan. Anna Sonja og Gunnborg eru báðar leikmenn SA og Sunna kemur einnig upphaflega úr röðum SA, en er leikmaður Södertälje í Svíþjóð um þessar mundir.

Tvær úr röðum SA skoruðu fyrir Ísland, þær Herborg Rut Geirsdóttir og Berglind Rós Leifsdóttir, eitt mark hvor. Þá skoraði Sunna Björgvinsdóttir tvö mörk og átti eina stoðsendingu í mótinu og Guðrún Marín Viðarsdóttir skoraði eitt mark.

Úrslit og tölfræði mótsins á vef IIHF

Landsliðshópurinn allur á vef ÍHÍ