Fara í efni
Íshokkí

Strákarnir á svellið á ný eftir slökun og gleði

Íslensku landsliðsstrákarnir skemmtu sér vel í pílukasti í gær ásamt þjálfurum og öðrum aðstandendum liðsins. Myndir af Facebook síðu Íshokkísambandsins

Íshokkílandslið 18 ára og yngri rennir sér á svellið á ný í kvöld þegar keppni í 3. deild heimsmeistaramótsins í íshokkí heldur áfram í Skautahöllinni á Akureyri.

Ísland er eina liðið af sex í riðlinum sem unnið hefur báða leikina til þessa; íslensku strákarnir sigruðu fyrst Mexíkó 5:3 og burstuðu síðan Bosníu og Hersegóvínu 9:0.

Tyrkland er mótherji kvöldsins og hefst leikurinn kl. 20.00. Lið Tyrkja tapaði 3:1 fyrir Ísrael í fyrstu umferð en vann síðan Lúxemborg 15:1.

Ekki var keppt í gær og notuðu íslensku strákarnir tímann til þess að slaka á eftir leik tvo daga í röð. Hópurinn heimsótti m.a. píludeild Þórs í gamla íþróttahúsinu við Laugargötu þar sem menn reyndu með sér í pílukasti og svo fór hópurinn í Skógarböðin.

Leikir dagsins í Skautahöllinni á Akureyri:

  • 13.00 Ísrael – Lúxemborg
  • 16.30 Mexíkó – Bosnía og Hersegóvína
  • 20.00 Ísland - Tyrkland

Rúnar Eff Rúnarsson landsliðsþjálfari, til vinstri, og Karvel Þorsteinsson tækjastjóri liðsins.