Íshokkí
Stelpurnar unnu aftur og fengu bikarinn
26.02.2023 kl. 16:40
Gleði á svellinu! Deildarbikarinn fer á loft eftir sigur SA-stelpnanna í dag.
Kvennalið Skautafélags Akureyrar fékk deildarmeistarabikarinn afhentan í dag eftir 3:0 sigur á Fjölni í Skautahöllinni á Akureyri. Stelpurnar okkar tryggðu sér titilinn í gær þegar þær sigruðu Fjölni á sama stað.
Katrín Björnsdóttir var í stóru hlutverki hjá SA í dag; lagði upp fyrsta mark leiksins sem Aðalheiður Ragnarsdóttir skoraði í fyrsta leikhluta og gerði svo tvö seinni mörkin í öðrum leikhluta, bæði eftir stoðsendingu Gunnborgar Jóhannsdóttur.
SA lauk Hertz deildarkeppninni með 42 stig, Fjölnir fékk 30 en Skautafélag Reykjavíkur var án stiga í vetur. SA og Fjönir leika því til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn og þar verður SA með heimaleikjaréttinn.
Deildarmeistarar Skautafélags Akureyrar 2023.