Stelpur á Andrésar andar leikunum 1977
GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 59
Margir bíða óþreyjufullir eftir því að skíðasvæðið í Hlíðarfjalli verði opnað og því er upplagt að gamla íþróttamyndin í dag sé frá upphafsárum Andrésar andar leikanna á skíðum. Í stað þess að dusta rykið enn einu seinni af skíðunum er tilvalið að lesendur rýni í myndina og athugi hvort þeir þekki stúlkurnar með nafni. Nöfn fjögurra þeirra eru reyndar birt hér fyrir neðan, en kannski vill einhver skoða myndina áður en hann sér nöfnin ...
Myndin er tekin þegar leikarnir fóru fram í annað skipti, í mars 1977. Á verðlaunapallinum eru stelpur í flokki níu ára; sigurvegari varð Akureyringurinn Guðrún Jóna Magnúsdóttir og stendur hún því á efsta palli. Guðrún Jóna afrekaði það að vinna tvenn gullverðlaun fimm ár í röð; hún sigraði bæði í svigi og stórsvigi öll árin sem hún tók þátt í leikunum. Fyrst í flokki átta ára, þar sem stelpur og strákar kepptu saman og síðasta í flokki 12 ára, sem þá var elsti flokkurinn.
Ekki er ljóst hvort myndin er tekin þegar verðlaun voru veitt fyrir keppni í svigi eða stórsvigi því röð fyrstu fjögurra var sú sama í báðum greinum og eru nöfn þeirra birt í sumum fjölmiðlum.
Frá vinstri: Bryndís Viggósdóttir Reykjavík (2. sæti), Guðrún Jóna Magnúsdóttir Akureyri (1.), Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir Ísafirði (3.), Björg Eiríksdóttir Akureyri (4.) en ekki er vitað hver lenti í fimmta sæti og er lengst til hægri. Þekkja lesendur hana? Gaman væri að fá upplýsingar sendar á netfangið skapti@akureyri.net