Fara í efni
Íshokkí

Skautafélagsfólk vígði nýju aðstöðuna

Sigurður Sveinn Sigurðsson, formaður Skautafélags Akureyrar, í nýju félagsaðstöðunni með áhorfendur og skautavellið í baksýn. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Ný og glæsileg félags- og æfingaaðstaða var formlega tekin í notkun í Skautahöllinni á Akureyri í gær. „Þetta er mikil lyftistöng fyrir félagið á allan hátt,“ segir Sigurður Sveinn Sigurðsson, formaður Skautafélags Akureyrar. Hann segir að ákveðið hafi verið að vanda vel til verka og útbúa fallegt og heimilislegt rými sem félagsmenn gætu verið stoltir af.

Nafnið á nýju félagsaðstöðuna var ekki opinberað í gær eins og hugmyndin var. Auglýst var eftir hugmyndum að nafni og félagsfólki síðan gefinn kostur á að kjósa á milli þriggja nafna; Skjaldborg, Miðgarður og Krókeyrarstofa. Niðurstaðan liggur ekki fyrir. Eflaust sýnist sitt hverjum um það hvaða nafn á best við.


Nýja félagsaðstaðan með útsýni yfir skautasvellið. Mynd: sasport.is.

Gísli Kristinsson arkitekt hannaði þessa viðbót sem nú hefur verið tekin í notkun, en hann teiknaði Skautahöllina í upphafi. B. Hreiðarsson var aðalverktaki en önnur fyrirtæki sem komu að framkvæmdunum voru Blikk- og tækniþjónustan, Bútur, Finnur Fjölnisson, Rafeyri og Raftákn.

Hófst með stefnumótun 2013

Sigurður hélt stutta ræðu við athöfnina, en vígslan var að öðru leyti látlaus og vinaleg, fólk sem tengist félaginu og framkvæmdunum að koma saman, njóta veitinga og spjalla um starfið og söguna í aðdraganda hokkíleiks dagsins. Látlaus og ánægjuleg samkoma í hlýjum norðurenda Skautahallarinnar sem á eftir að skipta miklu máli fyrir félagsstarf allra deildanna, íshokkí-, listskauta- og krulludeildar.

Þessi nýja aðstaða á sér nokkurn aðdraganda sem Sigurður rifjar upp í samtali við Akureyri.net. „Það er skemmtilegt við þetta að undanfarinn að þessu er stefnumótunarfundur sem við héldum 2013. Niðurstaðan af þeim fundi var að allir voru sammála um bætta félagsaðstöðu. Í framhaldi af því skrifuðum við bréf til bæjarins og árið 2014 var haldinn fyrsti fundur. Nú eru liðin tíu ár,“ segir Sigurður.

Þriggja hæða félags- og æfingaaðstaða

Norðurendi hússins, sem áður var aðallega opið rými með lítilli veitingaaðstöðu og kaffistofu á jarðhæðinni og svölum ásamt skrifstofu og litlu fundar- eða félagsherbergi á 2. hæðinni, er gjörbreyttur með þessum framkvæmdum.


Ásgrímur Ágústsson, ljósmyndari og einn af heiðursfélögum Skautafélags Akureyrar, og Sigurður Sveinn Sigurðsson, formaður félagsins. Ási er reyndar vanari að vera aftan við linsuna en framan við hana enda hefur hann tekið óteljandi ljósmyndir á mörgum áratugum á viðburðum á vegum allra deilda félagsins.

Byggt hefur verið utan um rýmið á fyrstu hæðinni og það því orðið upphitað og lyfta komin í húsið. Upphituð félagsaðstaða eða veitingarými er á 2. hæðinni, ásamt skrifstofum fyrir félagið og deildir þess og lyftingasal. Þar fyrir ofan er svo einnig kominn æfingasalur. Útsýni er bæði úr æfingasalnum og félagsaðstöðunni yfir svellið og því hægt að fylgjast með viðburðum á ísnum þaðan, eins og úr stúkunni.

Hljóðkerfi hússins er tengt inn í félagsaðstöðuna og áhorfendur þar heyra því til dæmis kynni á leikjum og viðburðum, auk þess sem þar er sjónvarp og þegar streymt er frá viðburðum á svellinu er einnig hægt að fylgjast með þeim á skjánum.

Miklar breytingar á áratug

Nýja aðstaðan er samtals að gólffleti um 300 fermetrar. Kostnaðaráætlun var í upphafi um 200 milljónir króna, en frá því að lagt var af stað í þessa ferð bættust við nokkur viðbótarverk sem ýmist voru kostuð af bænum eða félaginu, en lokatölur um framkvæmdakostnað liggja ekki fyrir.

Þó svo rúmlega tíu ár hafi liðið frá stefnumótun innan félagsins um framkvæmdirnar þá gerðist ýmislegt í millitíðinni og má segja að aðrar þarfari framkvæmdir hafi ýtt félagsaðstöðunni aftar í forgangsröðina, eiginlega af illri nauðsyn. Það var nefnilega komin frostlyfting undir gólfplötuna og kominn tími á að endurnýja undirlagið og steypa nýtt gólf.

Á tímabili á árunum 2013-14 var lyftingin það mikil að sprungur mynduðust í tveimur eða þremur límtrésstoðum á austurhlið hallarinnar og voru þær styrktar sérstaklega og boltaðar saman til að koma í veg fyrir frekari skemmdir. Farið var í framkvæmdir við nýja plötu og ramma utan um skautasvellið, ásamt endurnýjun frystivéla árið 2018 og það haust hófst keppnistímabilið á svellinu með seinna móti.

Hefur gríðarlega þýðingu

Framkvæmdirnar við aðstöðuna sem nú hefur verið tekin í notkun hófust árið 2022, aðstöðu sem var orðin mikil þörf fyrir og hefur mikla þýðingu fyrir starfið að sögn Sigurðar.

Þetta hefur gríðarlega mikla þýðingu því nú getum við bætt í æfingar utan íss. Listskautadeildin hefur til dæmis verið að sækja æfingar í önnur íþróttahús, fyrir dansrútínur og annað, en nú er hægt að gera það hérna uppi. Allt íþróttafólkið okkar hefur verið að æfa mikið hérna út um alla höll, á göngunum, í tröppunum og stúkunn. Núna erum við komin með fyrsta flokks lyftinga- og æfingaaðstöðu. Það mun örugglega breyta miklu og gera okkur enn sterkari,“ segir Sigurður Sveinn Sigurðsson, formaður Skautafélags Akureyrar.


Æfingasalurinn á 3. hæðinni sem gjörbreytir meðal annars möguleikum listskautafólks fyrir æfingar utan íss, til dæmis dansrútínur, sem iðkendur hafa þurft að sækja í önnur íþróttahús hingað til. Myndirnar hér að neðan eru úr lyftinga- og æfingasalnum á 2. hæðinni.  Myndir: Haraldur Ingólfsson.




Lyftinga- og æfingasalurinn á 2. hæð. Hér sést úr nýja lyftinga- og æfingasalnum yfir skautasvellið. Myndin var tekin á meðan á leik SA Víkinga og SR í Hertz-deild karla stóð í gær.