Fara í efni
Íshokkí

Sigurmark í blálokin í fyrsta úrslitaleiknum

Þarna skall hurð nærri hælum við mark Fjölnismanna í dag. Orri Blöndal (2) þrumar pekkinum, Atli Valdimarsson markvörður og varnarmaðurinn Hjalti Friðriksson gera hvað þeir geta til varnar en sluppu með skrekkinn; pökkurinn flaug framhjá markinu. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Andri Skúlason tryggði Skautafélagi Akureyrar sigur, 2:1, á Fjölni með marki þegar 24,8 sekúndur voru eftir af fyrsta úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí á Akureyri undir kvöld. Leikurinn var stórskemmtilegur á að horfa; hraðinn mikill og harkan í fyrirrúmi. Sannarlega ekkert gefið eftir! Þetta var „alvöru“ íshokkíleikur sem lofar mjög góðu um framhaldið.

Ekkert var skorað í fyrsta leikhluta en Einar Guðnason kom gestunum yfir snemma í öðrum leikhluta eftir stoðsendingu Róberts Pálssonar. Það var ekki fyrr en strax í upphafi þriðja og síðasta leikhluta sem SA náði að skora – Axel Orongan gerði glæsilegt mark; hann náði pekkinum í baráttu við gestina á miðjum vellinum, brunaði fram og markvörður Fjölnis fékk ekki við neitt ráðið, svo pökkurinn þandi út netmöskvana.

Bæði lið fengu fín færi til að skora það sem eftir lifði leiks en hvorki gekk né rak ekki fyrr en í blálokin að Andri skoraði sem fyrr segir. Hann fékk pökkinn óaréttur í góðu færi og þrumaði honum rétta leið við mikinn fögnuð liðsfélaga og áhorfenda.

Það lið verður Íslandsmeistari sem sigrar í þremur leikjum.

Næsti leikur verður í Reykjavík á þriðjudagskvöldið og sá þriðji á Akureyri á fimmtudagskvöld. Ef með þarf verður fjórða viðureign liðanna í Egilshöll sunnudaginn 2. maí og sú fimmta í Egilshöll þriðjudagskvöldið 4. maí.

  • Vert er að vekja athygli á því að í kvöld ráðast úrslitin á Íslandsmóti kvenna. Skautafélag Akureyrar tekur þá aftur á móti Fjölni. Leikurinn hefst klukkan 20.30 og sigurvegarinn fær Íslandsbikarinn afhentan að leikslokum. Takmarkaður fjöldi áhorfenda er leyfilegur í húsinu en viðureignin verður sýnd beint á vef Íshokkísambands Íslands - smellið hér til að horfa.

Andri Skúlason lætur vaða að marki; ekkert annað var í stöðunni, hann var í góðri og ekki nema um 25 sekúndur eftir. Pökkurinn rataði leið og sigurinn var í höfn!

Hafþór Sigrúnarson, til hægri, fagnar Andra Skúlasyni strax eftir að hann gerði sigurmarkið.

Hetjunni fagnað eftir sigurmarkið.

Að sjálfsögðu var vel tekist á annað slagið, eins og vera ber í góðum íshokkíleik!