Fara í efni
Íshokkí

Sex mörk og sigur SA á liði Fjölnis

Sólrún Assa Arnardóttir, lengst til hægri, skoraði eitt mark og átti þrjár stoðsendingar í sigri SA á Fjölni í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kvennalið Skautafélags Akureyrar í íshokkí lætur það ekki trufla sig á svellinu þó miklar breytingar hafi orðið á leikmannahópnum. SA-konur halda áfram að sýna yfirburði í Hertz-deildinni og hafa nú unnið þrjá fyrstu leiki sína á leiktíðinni. SA fékk lið Fjölnis í heimsókn í Skautahöllina á Akureyri í kvöld, í annað skiptið á þessu tímabili, en fyrsta leik tímabilsins lauk með 5-4 sigri SA.

Aðeins eitt mark var skorað í fyrsta leikhluta, það gerði Jónína Guðbjartsdóttir fyrir SA. Ekkert var skorað í fyrri hluta annars leikhluta, en svo komu þrjú mörk á skömmum tíma hjá SA og forystan orðin fjögur mörk. Gestirnir komust loks á blað snemma í þriðja leikhluta, en SA-konur svöruðu með tveimur mörkum og sigurinn aldrei í hættu, lokatölur 6-1.

Fjórtán ára leikmaður SA, Sólrún Assa Arnardóttir, fædd 2009, skoraði eitt mark og átti þrjár stoðsendingar. Silvía Rán Björgvinsdóttir heldur uppteknum hætti, en hún skoraði tvö mörk liðsins í kvöld.

SA - Fjölnir 6-1 (1-0, 3-0, 2-1).

  • 1-0 - Jónína Guðbjartsdóttir (18:57). Stoðsending: María Eiríksdóttir, Sólrún Assa Arnardóttir.
  • 2-0 - Amanda Bjarnadóttir (32:47). Stoðsending: Sólrún Assa Arnardóttir, Ragnhildur Kjartansdóttir.
  • 3-0 - Magdalena Sulova (36:47). Stoðsending: Arndís Sigurðardóttir, Aðahleiður Ragnarsdóttir.
  • 4-0 - Silvía Rán Björgvinsdóttir (39:49). Stoðsending: Jónína Guðbjartsdóttir.
  • 4-1 - Kolbrún Garðarsdóttir (46:52). Stoðsending: Berglind Leifsdóttir.
  • 5-1 - Silvía Rán Björgvinsdóttir (52:41). Stoðsending: Ragnhildur Kjartansdóttir, Sólrún Assa Arnardóttir.
  • 6-1 - Sólrún Assa Arnardóttir (56:13).

SA
Mörk/stoðsendingar: Sólrún Assa Arnardóttir 1/3, Silvía Rán Björgvinsdóttir 2/0, Jónína Guðbjartsdóttir 1/1. Amanda Bjarnadóttir 1/0, Magdalena Sulova 1/0, Ragnhildur Kjartansdóttir 0/2, María Eiríksdóttir 0/1, Arndís Sigurðardóttir 0/1, Aðalheiður Ragnarsdóttir 0/1
Varin skot: 17 (94,44%).
Refsingar: 6 mínútur.

Fjölnir
Mörk/stoðsendingar: Kolbrún Garðarsdóttir 1/0, Berglind Leifsdóttir 0/1.
Varin skot: 25 (80,65%).
Refsingar: 6 mínútur.

Næsti leikur SA er heimaleikur þegar SR kemur í heimsókn laugardaginn 30. september. SA er í efsta sæti Hertz-deildarinnar með sex stig úr þremur leikjum, en Fjölnir og SR eru án stiga þar sem þau lið hafa aðeins mætt SA, en ekki spilað innbyrðis.