Fara í efni
Íshokkí

Saga Blöndal skiptir í SR

Saga Blöndal komin í SR-treyjuna. Mynd: skautafelag.is.

Á vef Skautafélags Reykjavíkur er sagt frá því að hin unga og bráðefnilega íshokkíkona Saga Blöndal sé gengin í raðir félagsins. Ástæða Sögu fyrir að velja SR fremur en Fjölni eins og margar sterkar hokkíkonur að norðan er áhugaverð. Hún vill gera deildina jafnari.

Á vef SR er viðtal við Sögu þar sem hún segir meðal annars: „Mig langaði bara til þess að breyta aðeins til og prófa að búa fyrir sunnan. Búin að vera að flakka smá á milli Svíþjóðar og Akureyrar seinustu ár og var komin með smá löngun í að prófa eitthvað nýtt. Flestar norðanstelpurnar sem hafa flutt suður hingað til hafa farið í Fjölni en mig langar að gera deildina eins skemmtilega og hægt er. Kvennalið SR er með ótrúlega efnilegar og ungar stelpur og mér finnst kominn tími til að það séu þrjú jöfn lið í deildinni.“

Þó Saga sé aðeins tæplega tvítug hefur hún spilað sjö tímabil í efstu deild, tekið þátt í þremur heimsmeistaramótum og einni Ólympíuforkeppni, að því er fram kemur á vef SR. Hún spilaði í Svíþjóð tímabilin 2019-20 og 2021-22, en önnur tímabil alltaf með uppeldisfélaginu, Skautafélagi Akureyrar. Saga spáir því að fram undan sé jafnasta tímabilið í íshokkíinu hjá konunum hingað til. 

Sjá einnig á íþróttavef Vísis.