Fara í efni
Íshokkí

SA Víkingar tryggðu deildarmeistaratitilinn

Deildarmeistarar SA Víkinga eftir sigurinn á Fjölni í dag. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

SA Víkingar sigruðu lið Fjölnis með sex mörkum gegn þremur í Hertz-deild karla í íshokkí í dag og tryggðu sér þar með deildarmeistaratitilinn í ár, en eiga þó enn eftir tvo leiki gegn Fjölni og tvo gegn SR.

SA fékk góðan liðsstyrk í vikunni þegar þrír Akureyringar sem hafa spilað í Svíþjóð að undanförnu fengu félagaskipti aftur í SA. Tveir þeirra, Gunnar Aðalgeir Arason og Heiðar Gauti Jóhannsson, voru mættir til leiks í dag, en sá þriðji, Halldór Skúlason, var ekki með.

Gestirnir voru á undan að koma pökknum í markið, Emil Alengaard skoraði fyrsta mark leiksins eftir tæplega fimm mínútna leik. SA Víkingar svöruðu með marki frá Unnari Hafberg Rúnarssyni um miðjan leikhlutann og Orri Blöndal kom SA Víkingum yfir með langskoti þegar langt var liðið á fyrsta leikhlutann.

Gunnar Aðalgeir Arason, einn þriggja Akureyringa sem kominn er til SA á ný eftir dvöl í Svíþjóð, í leiknum gegn Fjölni í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson 

Það voru rétt um tvær mínútur liðnar af öðrum leikhluta þegar Matthías Már Stefánsson skoraði fallegt mark og kom SA í 3-1. Upp úr miðjum öðrum leikhluta fengu Fjölnismenn tækifæri fimm á móti þremur eftir að tveir SA Víkingar voru sendir í refsiboxið og það nýttu þeir sér og minnkuðu muninn í 3-2. Seint í öðrum leikhluta kom svo jöfnunarmark og von á spennandi lokaþriðjungi.

SA Víkingar voru hins vegar mun aðgangsharðari en gestirnir í þriðja leikhlutanum og tryggðu sigurinn með þremur mörkum. Innan við tvær mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta þegar SA Víkingar náðu forystunni með marki Andra Freys Sverrissonar og um miðjan leikhlutann kom Ormur Karl Jónsson SA Víkingum í 5-3 með langskoti. Fyrirliðinn Andri Már Mikaelsson setti svo punktinn yfir i-ið með marki á lokamínútunni og fór vel á því þar sem hann tók svo við deildarmeistarabikarnum strax eftir leik. 

Markaskorun og stoðsendingar skiptust nokkuð jafnt á marga leikmenn SA Víkinga, sex leikmenn sem skoruðu mörkin. Jakob Ernfelt Jóhannesson varði 22 skot í marki SA, eða 88%. Þórir Aspar varði 36 skot í marki Fjölnis, eða tæp 86%. SA Víkingar dvöldu í 12 mínútur í refsiboxinu, en gestirnir í átta mínútur.

SA Víkingar - Fjölnir 6-3  (2-1, 1-2, 3-0)

  • 0-1 Emil Alengaard (04:53). Stoðsending: Hilmar Sverrisson, Viktor Svavarsson.
  • 1-1 Unnar Hafberg Rúnarsson (10:04). Stoðsending: Atli Sveinsson, Baltasar Hjálmarsson.
  • 2-1 Orri Blöndal (17:30). Stoðsending: Andri Már Mikaelsson, Gunnar Aðalgeir Arason.
    - - -
  • 3-1 Matthías Már Stefánsson (21:55). Stoðsending: Ormur Jónsson, Andri Freyr Sverrisson.
  • 3-2 Viktor Svavarsson (31:54). Stoðsending: Emil Alengaard, Róbert Pálsson.
  • 3-3 Lindon Dupljaku (37:33). Stoðsending: Róbert Pálsson.
    - - -
  • 4-3 Andri Freyr Sverrisson (41:24). Stoðsending: Jóhann Már Leifsson, Andri Már Mikaelsson.
  • 5-3 Ormur Karl Jónsson (48:39). Stoðsending: Jóhann Már Leifsson, Matthías Már Stefánsson.
  • 6-3 Andri Már Mikaelsson (59:17). Stoðsending: Uni Steinn Blöndal Sigurðarson, Orri Blöndal.

Með sigrinum fóru SA Víkingar í 40 stig og tryggðu sér deildarmeistaratitilinn. SR er í 2. sæti með 24 stig.