Fara í efni
Íshokkí

SA Víkingar geta orðið meistarar í kvöld

Þessi ungi drengur verður ekki í eldlínunni í kvöld en leggst hugsanlega sigri hrósandi á koddann – ef SA Víkingar vinna og hampa Íslandsbikarnum. Drengurinn spreytti sig á svellinu ásamt fleirum í leikhléi fyrsta úrslitaleiksins á dögunum og aldrei að vita nema hann renni sér í skautaför meistaraflokkskappanna þegar fram líða stundir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fjórði leikur í úrslitaeinvígi SA Víkinga og liðs Skautafélags Reykjavíkur um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí karla fer fram í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld. SA Víkingar eiga möguleika á að endurheimta titilinn með sigri í kvöld. Vinni SR verður oddaleikur á Akureyri að kvöldi skírdags.

Fyrstu tveir leikirnir í einvíginu unnust á útivelli. SR kom norður og vann eins marks sigur í fyrsta leik, en Akureyringar svöruðu með sigri fyrir sunnan í öðrum leik þar sem þeir náðu að snúa erfiðri stöðu við og vinna að lokum eins marks sigur. Í framhaldinu kom svo 7-1 sigur SA á heimavelli á laugardag. SA Víkingar eru því 2-1 yfir í einvíginu og geta með sigri endurheimt Íslandsbikarinn eftir árs fjarveru, en SR-ingar tóku hann með sér suður eftir sigur í oddaleik á Akureyri í fyrra.

Leikurinn í kvöld fer fram í Skautahöllinni í Laugardal og hefst kl. 19:45.