Fara í efni
Íshokkí

SA vann meistara SR í miklum markaleik

Mynd úr safni. Jóhann Már Leifsson í leik gegn SR. Jóhann var drjúgur í leiknum í dag, skoraði tvö mörk og átti þrjár stoðsendingar. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

SA Víkingar, karlalið Skautafélags Akureryar í íshokkí, vann meistarana í Skautafélagi Reykjavíkur í sveiflukenndum markaleik í Laugardalnum í kvöld og skaust á topp deildarinnar.

Leikurinn var kaflaskiptur í meira lagi. Fyrst skoruðu SA Víkingar tvisvar í fyrsta leikhluta sem heimamenn í SR svöruðu með fjórum mörkum á tæpum tíu mínútum í öðrum leikhluta. Þá var aftur komið að Akureyringum sem skoruðu næstu fimm mörk áður en annar leikhluti var úti og breyttu stöðunni úr 2-4 í 7-4. 

Sama mynstrið hélt svo áfram í lokaleikhlutanum, SR-ingar tóku við markaskoruninni og skoruðu tvö næstu mörk og minnkuðu muninn í eitt mark þegar þrjár og hálf mínúta lifði leiks. SA Víkingar náðu að verja forskotið þrátt fyrir ákafar tilraunir heimamanna, unnu leikinn og tylla sér þar með á toppinn í Toppdeild karla.

Eftir leikinn í dag er SA með 18 stig úr níu leikjum, en SR og Fjölnir bæði með 16 stig. SR hefur spilað 11 leiki og Fjölnir tíu. 

Heilstu tölur í liði SA:

Mörk/stoðsendingar: Jóhann Már Leifsson, 2/3, Dagur Jónasson 2/0, Andri Már Mikaelsson 1/1, Unnar Hafberg Rúnarsson 1/1, Atli Sveinsson 1/1, Ólafur Baldvin Björgvinsson 1/0, Orri Blöndal 1/0, Gunnar Arason 0/2, Bergþór Ágústsson 0/1, Hafþór Andri Sigrúnarson 0/1, Ormur Jónsson 0/1.
Varin skot: Tyler Szturm 25 (80,65%).
Refsimínútur: 35.

Leikurinn var í beinu streymi á YouTube-rás Íshokkísambandsins og hægt að horfa á upptökuna í spilaranum hér að neðan.