Fara í efni
Íshokkí

SA tapaði – úrslitin ráðast á Akureyri

Andri Mikaelsson, fyrirliði SA, skoraði eitt mark í kvöld og átti tvær stoðsendingar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Strákarnir í liði Skautafélags Akureyrar töpuðu 5:4 fyrir Skautafélagi Reykjavíkur í kvöld í mögnuðum leik fyrir sunnan. Þetta var fjórði úrslitaleikurinn, hvort lið hefur unnið tvo og Íslandsbikarinn fer því á loft á Akureyri á fimmtudagskvöldið eftir fimmtu viðureignina.  

Akureyringarnir voru með pálmann í höndunum þegar skammt var til leiksloka, 4:3 yfir en þegar rúm ein og hálf mínúta var eftir jöfnuðu heimamenn. Því var gripið til framlengingar og Kári Arnarsson tryggði SR sigurinn; gerði gullmark þegar tvær og hálf mínúta var liðin.

  • 1:0 (07:24) Sölvi Atlason
  • 1:1 (11:06) Orri Blöndal (stoðsending Andri Mikaelsson)
    _ _ _
  • 2:1 (18:31) Heiðar Kristveigarson (Styrmir Maack)
  • 2:2 (35:38) Hafþór Sigrúnarson (Andri Mikaelsson)
    _ _ _
  • 3:2 (43:03) Kári Arnarsson (Níels Hafsteinsson)
  • 3:3 (44:05) Gunnar Arason (Jóhann Leifsson)
  • 3:4 (51:40) Andri Mikaelsson (án stoðsendingar)
  • 4:4 (58:21) Sölvi Atlason (Ólafur Björnsson)
    _ _ _
  • 5:4 (62:30) Kári Arnarsson (Gunnlaugur Þorsteinsson)

Fyrsta markið var býsna skondið; SR-ingurinn Otuoma þrumaði að marki af löngu færi og Sölvi Atlason rak kylfuna í pökkinn sem skaust framhjá Jakobi markverði SA. Orri Blöndal jafnaði með glæsilegu skoti, Akureyringurinn Heiðar Kristveigarson skoraði því næst fyrir SR eftir frábæran undirbúning annars Akureyrings, Ævars Arngrímssonar og stoðsendingu Styrmis Maack, og Hafþór Sigrúnar jafnaði eftir góðan undirbúning Andra fyrirliða.

Fjörið jókst enn í þriðja og síðasta leikhluta, hvort lið gerði tvö mörk eins og sjá má hér að ofan. Gunnar Arason jafnaði fyrir SA og Andri Mikaelsson, sem lék sérlega vel, kom liðinu í fyrsta skipti en hafði áður átt tvær stoðsendingar.

SR gerði svo síðustu tvö mörkin sem fyrr segir. Þegar jafnt er í íshokkí er framlengt í fimm mínútur, en nái annað hvort liðið að skora áður en sá tími er á enda lýkur leik með því sigurmarki - gullmarki.

Lokaviðureign liðanna hefst klukkan 19.30 á fimmtudagskvöldið í Skautahöllinni á Akureyri og að bardaganum loknum fer Íslandsbikarinn á loft. Þá verður vonandi kátt í höllinni ...