Fara í efni
Íshokkí

SA-stúlkur nældu í 12 bronspeninga í Sófíu

Akureyringarnir í Búlgaríu; 12 leikmenn, liðsstjóri og heilbrigðisstarfsmaður.

Akureyrskar íshokkístúlkur urðu 12 bronsverðlaunapeningum ríkari í gær þegar landslið 18 ára og yngri lenti í þriðja sæti B-riðils 2. deildar heimsmeistaramótsins, sem fram fór í Sófíu, höfuðborg Búlgaríu.

Í landsliðshópnum voru 19 leikmenn, þar af 12 úr Skautafélagi Akureyrar! Frá SA voru einnig í ferðinni Margrét Aðalgeirsdóttir liðsstjóri og heilbrigðisstarfsmaðurinn Sólveig Hulda Valgeirsdóttir.

Íslenska liðið vann þrjá leiki á mótinu en tapaði tveimur. Sá fyrsti tapaðist naumlega fyrir Belgíu, 3:2, en Ísland vann þrjá næstu: lagði Nýja-Sjáland 2:1, Eistland 8:1 og loks heimamenn í landsliði Búlgaríu 3:2.

Fyrir síðasta leikinn átti íslenska liðið enn möguleika á öðru sæti í riðlinum og silfurverðlaunum en vitað var að við ramman reip væri að draga. Kazakhstan var með besta lið riðilsins, hafði unnið alla fjóra leikina en Ísland þurfti að sigra til að næla í silfrið. Svo fór að Kazakhstan vann örugglega, 7:0.

Akureyringarnir Inga Rakel Ara­dótt­ir og Eyrún Arna Garðars­dótt­ir urðu marka­hæst­ar í ís­lenska liðinu á mót­inu með þrjú mörk hvor.

Leikmenn Skautafélags Akureyrar í landsliðinu í Búlgaríu voru:

  • Aðalheiður Anna Ragnarsdóttir
  • Amanda Ýr Bjarnadóttir
  • Aníta Ósk Sævarsdóttir
  • Eyrún Arna Garðarsdóttir
  • Friðrika Stefánsdóttir
  • Heiðrún Helga Rúnarsdóttir
  • Inga Rakel Aradóttir
  • Kolbrún Björnsdóttir
  • Magdalena Sulova
  • María Guðrún Eiríksdóttir
  • Ragnheiður Alís Ragnarsdóttir
  • Sveindís Marý Sveinsdóttir

Íslenski landsliðshópurinn sem vann til bronsverðlauna í Búlgaríu.