Fara í efni
Íshokkí

SA stelpurnar einum sigri frá meistaratitli

Herborg Geirsdóttir fyrirliði SA í fyrsta úrslitaleiknum gegn Fjölni á Akureyri á fimmtudaginn. Hún skoraði tvö mörk í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kvennalið Skautafélags Akureyrar sigraði Fjölni 4:2 í Egilshöll í Reykjavík í dag, í öðrum úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí. SA vann fyrsta leikinn á heimavelli á fimmtudagskvöldið eftir vítakeppni og Akureyringar verða meistarar nái þeir að sigra þegar liðin mætast í þriðja sinn á þriðjudagskvöldið í Skautahöllinni á Akureyri.

Fjölnir gerði eina mark fyrsta leikhluta í dag. Þar var Sigrún Árnadóttir á ferðinni en Stelpurnar okkar í SA snéru leiknum sér í hag í öðrum leikhluta með því að gera þrjú mörk; Katrín Björnsdóttir, Herborg Geirsdóttir og Hilma Bergsdóttir skoruðu. Liðin gerðu svo sitt hvort markið í lokaleikhlutanum, fyrst skoraði Kolbrún Garðarsdóttir fyrir Fjölni og það var Herborg Geirsdóttir sem gulltryggði sigur SA með öðru marki sínu í leiknum, þegar rúmlega tvær og hálf mínúta var eftir.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.

  • Þriðji og hugsanlega síðasti leikurinn verður þriðiudaginn 7. mars í Skautahöllinni Akureyri kl. 19:30
  • 4. leikur – ef með þarf – 9. mars í Egilshöll kl. 19:30
  • 5. leikur – ef með þarf – 11. mars í Skautahöllinni Akureyri kl. 16:45