Fara í efni
Íshokkí

SA-konur tóku forystu í einvíginu

María Eiríksdóttir, sem hér er á fullri ferð með pökkinn í kvöld, gerði sigurmark SA þremur mínútum fyrir leikslok. Ljósmynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

Lið Skautafélags Akureyrar tók í kvöld forystu í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí kvenna með 2:1 sigri á Fjölni í fyrsta úrslitaleiknum. Liðin mættust í bráðfjörugum hörkuleik í Skautahöllinni á Akureyri.

Stelpurnar okkar byrjuðu af krafti en markvörður Fjölnis, Aurelie Donnini, varði vel í þrígang. Eitt mark var þó skorað í fyrsta leikhluta; Sigrún Árnadóttir var þar á ferðinni fyrir Fjölni þegar hún sendi pökkinn í SA-markið með glæsilegum þrumufleyg af löngu færi. Óverjandi fyrir Birtu Þorbjörnsdóttur.

Ekkert var skorað í öðrum leikhluta. SA sótti linnulítið en Fjölnir lagði höfuðáherslu á góða vörn. Mikill sóknarþungi skilaði sér svo í marki snemma í þriðja og síðasta leikhluta þegar Anna Sonja Ágústsdóttir jafnaði. Við þetta opnaðist leikurinn, bæði lið fengu góð tækifæri til að skora en María Eiríksdóttir var sú eina sem náði því; þrjár mínútur voru eftir þegar hún sneri á varnarmenn Fjölnis og skoraði af miklu harðfylgi. Þá var að vonum fagnað vel og innilega í höllinni.

þrjá leiki þarf til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Liðin mætast næsta á heimavelli Fjölnis í Egilshöll á fimmtudagskvöldið og þriðji leikurinn verður á Akureyri á laugardag.

  • 0:1 Sigrún Árnadóttir (13:46 mín.)
  • 1:1 Anna Sonja Ágústsdóttir (42:51)
  • 2:1 María Eiríksdóttir (56:54)

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.

Anna Sonja Ágústsdóttir á ísnum í kvöld. Hún gerði fyrra mark SA. Ljósmynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

Leikmenn SA fagna marki Maríu Eiríksdóttur, sem reyndist sigurmarkið, þremur mín. fyrir leikslok. Ljósmynd: Egill Bjarni Friðjónsson.