Fara í efni
Íshokkí

SA Íslandsmeistari fimmta árið í röð?

Lokadans Íslandsmótsins í íshokkí karla verður stiginn í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. SA-ingurinn Orri Blöndal, til hægri, tekur þarna létt spor ásamt Markúsi Ólafarsyni í þriðja leiknum við SR á Akureyri á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Íslandsmóti karla í íshokkí lýkur í kvöld með fimmta úrslitaleik Víkinga, liðs Skautafélags Akureyrar, og Skautafélags Reykjavíkur. Hvort lið hefur unnið tvo leiki þannig að sigurvegari kvöldsins hampar Íslandsbikarnum eftirsótta.

Akureyringar urðu deildarmeistarar í vor en Reykvíkingar komu á óvart og unnu býsna öruggan sigur í fyrsta úrslitaleiknum á Akureyri. Strákarnir okkar unnu næstu tvo leiki, fyrst í Reykjavik og svo á heimavelli, en SR-ingar unnu fjórða leikinn fyrir sunnan á þriðjudagskvöldið með gullmarki í framlengingu eftir æsispennandi og skemmtilega viðureign.

Takist Akureyringum að sigra í kvöld fagna þeir Íslandsmeistaratitlinum fimmta árið í röð og í 24. skipti alls.

Akureyringar eru hvattir til þess að fjölmenna í skautahöllina og hvetja sitt lið; óhætt er að lofa hörkuleik og mikilli baráttu! Leikurinn hefst klukkan 19.30.

Umfjöllun Akureyri.net um síðasta leik

Andri Mikaelsson, fyrirliði SA, með Íslandsbikarinn vorið 2021 þegar hann veitti honum síðast viðtöku á heimavelli. Bikarinn fór á loft í Reykjavík á síðasta ári þegar Akureyringar urðu meistarar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson