Fara í efni
Íshokkí

SA á toppnum í Hertz-deild kvenna

María Eiríksdóttir skoraði bæði mörk SA í 2-1 sigri á SR á laugardag. Hér er hún í oddaleiknum gegn Fjölni í úrslitaeivíginu á síðasta tímabili. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sigurganga kvennaliðs SA í íshokkí hélt áfram um helgina þegar stelpurnar mættu liði SR í Laugardalnum.

Það var ekki mikið skorað í leik liðanna á laugardaginn en SA-konur þó ágengari við mark andstæðinganna. Þær áttu 40 skot á mark á móti 14 skotum frá SR. SA skoraði eitt mark í fyrsta leikhluta, annar leikhluti var án marka og liðin skoruðu sitt markið hvort í þeim þriðja. María Eiríksdóttir skoraði bæði mörkin fyrir SA, það seinna þegar innan við tvær mínútur voru eftir af leiknum. Niðurstaðan 2-1 sigur SA á SR.

SA var lengi með 1-0 forystu, eða allt fram undir miðjan þriðja leikhluta þegar SR tókst að jafna. Í umfjöllun um leikinn á vefnum ishokki.is segir meðal annars: Allt stefndi í framlengingu. SR missti leikmann af velli þegar rúmar 2 mínútur voru eftir. Maríu Eiríksdóttur, leikmann SA, langaði greinilega ekki í framlengingu, nýtti yfirtöluna og skoraði sitt annað mark fyrir SA. SR tók strax leikhlé og ákvað að freista gæfunnar með því að taka Andreu Bachmann, markmann SR, út af og spila með 6 útileikmenn. SR var með pökkinn alla síðustu mínútuna en náðu ekki að skila honum í netið.

  • Gangur leiksins: SR - SA 1-2 (0-1, 0-0, 1-1)

SR
Mörk/stoðsendingar: Malika Aldabergenova 1/0,
Varin skot: Andrea Bachmann 38 (95%).

SA
Mörk/stoðsendingar: María Eiríksdóttir 2/0, Anna Sonja Ágústsdóttir 0/1, Ragnhildur Kjartansdóttir 0/1.
Varin skot: Shawlee Gaudreault 13 (92,9%).

SA hefur unnið sex af fyrstu sjö leikjum sínum í Hertz-deildinni og er á toppnum með 18 stig. Eini tapleikurinn kom reyndar þegar liðið tók tveggja leikja helgi fyrir sunnan, spilaði við Fjölni á laugardegi og sunnudegi og tapaði sunnudagsleiknum. Fjölnir er með sex stig úr fimm leikjum og SR án stiga úr fjórum fyrstu leikjum sínum.

Næsti leikur SA í Hertz-deild kvenna er ekki fyrr en 4. Nóvember, en þá taka þær á móti liði SR í Skautahöllinni á Akureyri.