Fara í efni
Íshokkí

Reykvíkingar fögnuðu sigri í Skautahöllinni

Hasar í kvöld! Axel Orongan, til vinstri, reyndist gömlu félögunum í SA erfiður Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Axel Orongan, sem leikur með Skautafélagi Reykjavíkur í vetur, reyndist gömlu félögunum erfiður í kvöld þegar SA og SR mættust á Akureyri í Íslandsmótinu í íshokkí - Hertz deildinni. Hann skoraði eitt mark og átti þátt í hinum þremur þegar SR vann 4:2.

SR var 1:0 yfir eftir fyrsta leikhluta, SA komst í 2:1 í þeim næsta með mörkum Baltasars Hjálmarssonar (eftir stoðsendingu Heiðars Kristveigarsonar) og Orra Blöndal (eftir stoðsendingu Jóhanns Leifssonar) en SR jafnaði áður en leikhlutinn var úti og gestirnir gerðu svo tvö mörk í þriðja og síðasta hluta leiksins.

Þetta var fjórði leikur liðanna í vetur; Akureyringar unnu fyrst 6:2 í Reykjavík en SR-ingar sneru dæminu við og unnu næst á Akureyri, 7:6, eftir vítakeppni. SA vann þriðja leikinn 7:3 á heimavelli. Fimmta viðureign SA og SR er strax næsta laugardag í Reykjavík.