Fara í efni
Íshokkí

Öruggur sigur SA í Laugardalnum

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Íslandsmeistarar SA í íshokkí kvenna fara vel af stað á Íslandsmótinu. Í dag unnu þær öruggan útisigur á liði SR og eru komnar með tvo sigra í tveimur fyrstu leikjunum.

  • SR-SA 1-4 (0-2, 0-2, 1-0)

Anna Sonja Ágústsdóttir opnaði markareikning SA-kvenna um miðjan fyrsta leikhluta og Silvía Rán Björgvinsdóttir bætti við öðru marki þegar langt var liðið á leikhlutann. Eyrún Garðarsdóttir og Sólrún Assa Arnardóttir bættu við tveimur mörkum í öðrum leikhluta og forysta því orðin fjögur mörk þegar kom að lokaleikhlutanum. SR náði að skora eitt mark í lokaþriðjungnum, en þar við sat og öruggur 4-1 sigur SA í höfn.

Einhver bilun virðist hafa komið upp í skráningarkerfi ÍHÍ því upplýsingar um gang leiksins, markaskorara, stoðsendingar, refsingar og varin skot komu ekki inn jafnóðum í leikskýrslukerfið eins og venjan er.