Fara í efni
Íshokkí

Öruggur sigur SA gegn Íslandsmeisturunum

Jakob Ernfelt Jóhannesson stóð vaktina af öryggi í marki SA, varði 30 skot í leiknum, eða 93,75% þeirra skota sem á markið komu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

SA Víkingar mættu Íslandsmeisturum SR í Hertz-deild karla í íshokkí í kvöld og unnu örugglega, 6-2. Gestirnir höfðu forystu að loknum fyrsta leikhlutanum, en skoruðu ekki mark í öðrum og þriðja.

Fyrsti leikhlutinn var tæplega hálfnaður þegar fyrsta markið kom og það var heimamanna, en gestirnir jöfnuðu rétt rúmum tveimur mínútum síðar og tóku svo forystuna á lokamínútu leikhlutans. Varnarmaðurinn Arnar Helgi Kristjánsson sem gerði það gott með U20 landsliðinu á HM jafnaði leikinn þegar nokkrar mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta.

Stöðva þurfti leikinn í nokkrar mínútur um miðjan annan leikhluta til að gera við batta í einu horninu, en skömmu eftir að leikur hófst að nýju náði Hafþór Andri Sigrúnarson forystunni fyrir SA Víkinga með fallegu marki og ekki löngu síðar komst Jóhann Már Leifsson einn á móti markmanni og skoraði af öryggi. Það var síðan nokkur bið eftir næsta marki, en það var vel þess virði að bíða eftir því. Unnar Hafberg Rúnarsson átti þá glæsilegt skot fyrir utan í slá og inn, bætti svo við sjötta marki SA fjórum mínútum síðar og misnotaði víti skömmu eftir það, sem kom reyndar ekki að sök og SA Víkingar sigldu sigrinum þægilega í höfn.

SA - SR 6-2 (1-2, 3-0, 2-0)

  • 1-0 Róbert Hafberg (08:20). Stoðsending: Hafþór Andri Sigrúnarson, Jóhann Már Leifsson.
  • 1-1 Gunnlaugur Þorsteiinsson (09:13). Stoðsending: Felix Sareklev Dahlsted, Sölvi Atlason. 
  • 1-2 Filip Krzak (19:34). Stoðsending: Þorgils Eggertsson.
    - - -
  • 2-2 Arnar Helgi Kristjánsson (25:03). Stoðsending: Jóhann Már Leifsson, Atli Sveinsson.
  • 3-2 Hafþór Andri Sigrúnarson (29:05). Stoðsending: Andri Már Mikaelsson, Jóhann Már Leifsson.
  • 4-2 Jóhann Már Leifsson (31:42). Stoðsending: Orri Blöndal.
    - - -
  • 5-2 Unnar Hafberg Rúnarsson (48:58). Stoðsending: Birkir Einisson.
  • 6-2 Unnar Hafberg Rúnarsson (52:52).

Jakob Ernfelt Jóhannesson stóð vaktina af öryggi í marki SA, varði 30 skot í leiknum, eða 93,75% þeirra skota sem á markið komu. SA átti mun fleiri skot á mark en SR, 47 á móti 32. Atli Valdimarsson, markvörður SR, varði 41 skot, eða 87,23%. Dvöl leikmanna í refsiboxunum skiptist bróðurlega á milli, 14 mínútur á hvort lið. 

SA Víkingar eru sem fyrr langefstir í deildinni, hafa safnað 39 stigum í sarpinn og eru 15 stigum á undan Íslandsmeisturum SR. Þeir fá stutta hvíld eftir þennan leik því næsti leikur SA Víkinga verður strax á sunnudaginn kemur, gegn Fjölni í Egilshöllinni.

Leik SA Víkinga og SR var streymt á YouTube-rás SA TV þar sem finna má upptöku af leiknum.