Fara í efni
Íshokkí

Nýr aðalþjálfari hokkídeildar SA

Jamie Dumont er nýr aðalþjálfari íshokkídeildar Skautafélags Akureyrar.

Íshokkídeild Skautafélags Akureyrar hefur ráðið Jamie Dumont sem aðalþjálfara íshokkídeildar og verður hann aðalþjálfari beggja meistaraflokka, auk þess að vera þróunarstjóri unglingaflokkanna U18, U16 og U14.

Þetta kemur fram í frétt á vef Skautafélagsins. Jamie er fæddur 1973 í Bandaríkjunum, reynslumikill þjálfari sem starfaði síðast sem ráðgjafi fyrir ítölsku íshokkílandsliðin á síðasta tímabili ásamt því að vera yfir leikmannaþróun. Áður var hann yfirþjálfari Bowdoin College í bandaríska NCAA háskólahokkíinu í sex ár en á 26 ára þjálfaraferli hefur hann einnig þjálfað félagslið á Ítalíu og Hollandi, þjálfað í QMJHL deildinni og fleiri NCAA háskólalið.

Rætt er við Jamie á heimasíðu SA, þar sem hann segir:

„Ég er ótrúlega spenntur fyrir þessu tækifæri sem ég fæ á Íslandi. Skautafélag Akureyrar er frábær klúbbur með langri hefð fyrir að ná árangri á öllum sviðum. Að tilheyra hokkífjölskyldunni á Akureyri og ykkar frábæra stuðningsfólki er eitthvað sem verður mjög sérstakt að fá að vera hluti af. Sigurhefðin er sterk á Akureyri og ég hlakka til að halda áfram á þeirri vegferð sem byggir á þróunarkúltúr og frammistöðu í öllum flokkum.

Við erum með miklar væntingar til tímabilsins svo við verðum að setja kröfu um háan standard. Þetta snýst ekki einfaldlega um sigra eða töp. Þetta snýst um að vera besta útgáfan af sjálfum okkur daginn út og daginn inn.“

Fyrsti leikurinn undir stjórn nýja þjálfarans verður þegar kvennalið SA mætir Fjölni annað kvöld, fimmtudaginn 14. september kl. 19:30, í Skautahöllinn á Akureyri.