Fara í efni
Íshokkí

Ný inniaðstaða tekin í notkun að Jaðri

Ný og glæsileg inniaðstaða fyrir kylfinga var opnuð hjá Golfklúbbi Akureyrar (GA) að Jaðri á laugardaginn strax að loknum aðalfundi klúbbsins. Það voru Halldór Rafnsson, fyrrverandi formaður GA og heiðursfélagi klúbbsins, og Hulda Bjarnadóttir, forseti Golfsambands Íslands, sem klipptu á rauðan borða – og markaði sú klipping upphaf nýrra tíma.

Í nýrri byggingu sem tengd er golfskálanum eru nú sex golfhermar og auk þess 20 holu púttvöllur og vippsvæði, ríflega tvöfalt stærra en það sem var í boði í íþróttahöllinni þar sem kylfingar hafa haft inniaðstöðu til fjölda ára. Frá og með laugardeginum er öll starfsemi Golfklúbbs Akureyrar á einum stað, að Jaðri, sem þykir afar mikilvægt og margoft hefur verið hamrað á í umræðum um íþróttafélög síðustu misseri.

Halldór Rafnsson heiðursfélagi í GA og Hulda Bjarnadóttir forseti GSÍ klipptu á rauðan borða og þar með var inniaðstaðan að Jaðri formlega tekin í notkun.

Fyrsta skóflustunga að nýbyggingunni vestan golfskálans að Jaðri var tekin síðla septembermánaðar á síðasta ári. Byggingin er 540 fermetrar að stærð og í kjallara er geymslusvæði fyrir vélar og tæki auk æfingasvæðis.