Fara í efni
Íshokkí

Leikbönn íshokkímanna – ólík túlkun ummæla

Aganefnd og stjórn Íshokkísambands Íslands (ÍHÍ) hafa fengið á sig gagnrýni eftir úrskurði aganefndarinnar frá 3. og 6. október og yfirlýsingu stjórnar 4. október í framhaldi af ummælum í leik og árás og hótunum eftir leik karlaliða Skautafélags Akureyrar (SA) og Skautafélags Reykjavíkur (SR) laugardaginn 28. september.

Gagnrýnin hefur beinst að því að hart sé tekið á árás og hótunum tveggja leikmanna SR með leikbanni til 1. janúar 2025, en til samanburðar fái leikmaður sem viðhafði ummæli gagnvart öðrum áðurnefndra leikmanna SR, sem aganefndin telur ámælisverð, eins leiks bann fyrir óíþróttamannslega hegðun. 

Um það virðist deilt hvort túlka megi ummælin sem kynþáttaníð eða ekki. Eftir því sem Akureyri.net kemst næst er um viðkvæmt og margslungið mál að ræða. 

Fjallað hefur verið um málið af RÚV og Vísi þar sem sögð er mikil ólga innan hreyfingarinnar vegna málsins. 

Leikbann fyrir brot og ummæli

Málið snýst um ummæli sem leikmaður SA viðhafði í leiknum og svo árás og hótanir leikmanna SR gegn viðkomandi leikmanni SA eftir leikinn, auk framkomu liðsstjóra SR sem jafnframt er formaður hokkídeildar og formaður aðalstjórnar félagsins.

Á fundi aganefndar ÍHÍ 3. október voru leikmenn SA dæmdir í eins leiks bann, það er sá sem braut á leikmanni SR og var útilokaður frá leiknum. Hins vegar sá sem í framhaldinu viðhafði ummæli gagnvart þeim sem brotið var á í þann mund sem hann stóð upp aftur eftir brotið.. 

Fram kom í úrskurðinum 3. október að fleiri mál væru til meðferðar hjá nefndinni varðandi sama leik og væri unnið að gagnaöflun.

Stjórn ÍHÍ skýr í afstöðu til ofbeldis

Eftir fyrri úrskurð aganefndar gaf stjórn ÍHÍ út yfirlýsingu þar sem hún „harmar mjög það atvik sem átti sér stað eftir leik Skautafélags Akureyrar og Skautafélags Reykjavíkur í Toppdeild karla um nýliðna helgi.“

Þá segir einnig í yfirlýsingunni að stjórnin fordæmi „ofbeldi af öllu tagi hvort sem um er að ræða líkamlegt eða andlegt ofbeldi, sem og hvers kyns orðræðu sem beinist gegn kyni, kynþætti, kynhneigð, trúarbrögðum eða húðlit. Stjórn ÍHÍ hafa borist tvö erindi varðandi atvik sem áttu sér stað í og eftir umræddan leik og hefur þeim verið vísað áfram til aganefndar ÍHÍ.“

Hefndarbrot utan ramma leiksins ekki liðin

Aganefndin tók einarða afstöðu í úrskurði sínum 6. október hvað það varðar að brýna leikmenn og lið í því að það verði aldrei liðið að einstaklingar eða hópar taki það upp hjá sér að hefna fyrir eitthvað sem á að hafa gerst innan ramma leiksins. Bent er á að hreyfingin hafi til þess leiðir að taka á þeim málum sem upp koma og aðrar úrlausnir verði ekki liðnar.

„Aganefnd er samstíga og ákveðin í því að taka hart á svona uppákomum og senda þau skilaboð út í hreyfinguna að það verður aldrei liðið að leikmenn ráðist á aðra leikmenn utan við ramma leiksins,“ segir einnig í úrskurði aganefndarinnar.