Fara í efni
Íshokkí

Lehtinen snýr aftur, Rúnar hættir á toppnum!

Rúnar Eff Rúnarsson þegar karlalið SA varð Íslandsmeistari á dögunum - Ólöf Björk Sigurðardóttir, formaður íshokkídeildar SA og Sami Lehtinen.

Sami Lehtinen hefur verið ráðinn yfirþjálfari og þróunarstjóri íshokkídeildar Skautafélags Akureyrar næsta árið. Sami, sem var yfirþjálfari hjá félaginu tímabilið 2019 til 2020, var aðstoðarþjálfari hjá HIFK í Finnlandi í vetur, þegar liðið vann bronsverðlaun í finnsku úrvalsdeildinni.

Þar með lætur Rúnar Eff Rúnarsson af starfi aðalþjálfara, en hann stýrði fjórum liðum SA í vetur, sem öll urðu Íslandsmeistarar; karla- og kvennalið félagsins og lið U 16 og U18. Ekki hægt að toppa það!

Lehtinen verður yfirþjálfari meistaraflokka félagsins ásamt U18, U16 og U14. Hann kemur til starfa 1. ágúst og mun einnig sjá um sumarhokkískólann í samstarfi við Söruh Smiley.

Heppnaðist „þokkalega“

„Ég datt í raun bara inn í starfið í haust,“ segir Rúnar Eff við Akureyri.net á þessum tímamótum. „Hef náttúrlega verið leikmaður hjá klúbbnum í áratugi og svo aðstoðarþjálfari að einhverju leyti eftir að ég hætti að spila. Svo kemur bara upp sú staða í haust að það vantar einhvern til að þjálfa liðin þar til erlendi þjálfarinn kemur, og ég tók það að mér, enda lítið að gera í músíkinni vegna Covid.“ Rúnar er tónlistarmaður og hefur alla jafna nóg að gera sem slíkur, en heimsfaraldurinn setti að sjálfsögðu strik í reikninginn hjá honum eins og öðrum.

„Þannig var þetta í mánuð eða svo og þá kemur í ljós að þjálfarinn kemur ekki. Þá var bara ekkert annað í stöðunni en að klára þetta tímabil eins vel og hægt var – og ég held það hafi bara heppnast þokkalega! En það stóð aldrei til að ég héldi áfram, og því fagna ég því að Sami Lehtinen skuli vera koma aftur. Hann er virkilega flottur þjálfari,“ segir Rúnar Eff.

U 16 – Íslandsmeistaralið Skautafélags Akureyrar.

U 18 – Íslandsmeistaralið Skautafélags Akureyrar.