Fara í efni
Íshokkí

Landsliðsskautar Jónínu á hilluna

Jónína með Íslandsbikarinn eftir að 21. Íslandsmeistaratitill hennar var í höfn í fyrrakvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Jónína Margrét Guðbjartsdóttir, landsleikjahæsta kona Íslands í íshokkí, hefur ákveðið að leggja landsliðskautana á hilluna.

Jónína, sem er nýorðin 42 ára og varð Íslandsmeistari í 21. skipti með SA á þriðjudagskvöldið, reif liðband í hné fyrir rúmum mánuði, náði þó að taka þátt í úrslitarimmunni um Íslandsbikarinn en treystir sér ekki með landsliðinu á HM sem fram fer í Mexíkó í næstu mánuði. Hún lætur því gott heita með landsliðinu. Líkaminn gat ekki getað fylgt huganum og hjartanu og því er best að viðurkenna fyrir sjálfri sér að komið sé nóg, segir Jónína.

Jónína Margrét með pökkinn í landsleik gegn Mexíkó á heimsmeistaramóti - B-riðli 2. deildar - sem fram fór á Akureyri árið 2017. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Eftir að liðband rifnaði í hnénu um daginn missti Jónína af fimm deildarleikjum en „rétt náði að tjasla mér saman til að keppa síðustu tvo leikina í deildinni fyrir einni og hálfri viku og svo að þola úrslitin. Ég var að vonast til að geta haldið áfram en síðasti leikurinn í úrslitunum var nokkuð slæmur fyrir skrokkinn og það sagði mér að ég myndi ekki þola álagið á landsliðsæfingum og því krefjandi verkefni sem beið mín í Mexíkó,“ segir hún við Akureyri.net.

Missti bara af leikjum komin átta mánuði á leið!

Þegar landslið Íslands fór erlendis í fyrstu keppnisferðina, til Nýja Sjálands 2005, var Jónína með í för og segist eingöngu hafa misst af landsliðsferð þegar hún var komin átta mánuði á leið með drenginn sinn 2011. Þá fór liðið á HM. „Það má víst ekki spila þegar maður er kominn svona langt á leið!“ segir hún létt.

Jónína er leikjahæsta landsliðskona Íslands. Hana minnir að landsleikirnir séu 66, þar af 63 á HM og þrír í undankeppni Ólympíuleikanna. „Ég hef unnið tvö gull á HM í okkar deild, 2008 og 2022.“

Hún var aðalþjálfari U18 landsliðs kvenna í fyrstu utanferð, á HM í Tyrklandi 2022 og það var ekki í eina skipti sem hún braut ísinn að einhverju leyti. „Ég var í fyrsta kvennaliði SA þegar það byrjaði vorið 2000 og keppti í fyrsta skipti um Íslandsmeistaratitilinn, var í fyrstu landsliðsferðinni sem keppti á HM og í fyrstu undankeppninni fyrir Ólympíuleikana,“ segir Jónína.

Sannarlega glæsilegum landsliðsferli lokið en Jónína á eftir að ná nýjasta takmarkinu – að verða Íslandsmeistari ásamt dóttur sinni með liði SA!

Jónína, lengst til vinstri, með Íslandsbikarinn vorið 2021 ásamt Önnu Sonju Ágústsdóttur og Aðalheiði Ragnarsdóttur. Þetta var í 19. skipti sem hún varð Íslandsmeistari og tveir titlar hafa bæst í safnið síðan. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.