Fara í efni
Íshokkí

Kvennalið SA verður á toppnum um jólin

Fjölmennur og öflugur leikmannahópur SA. Myndin er skjáskot úr leik á Akureyri fyrr í vetur.

Kvennalið Skautafélags Akureyrar í íshokkí verður á toppi Hertz-deildarinnar, Íslandsmótsins í íshokkí, um jólin. Það var reyndar löngu vitað því hokkístelpurnar okkar eru í yfirburðastöðu í deildinni, eins og jafnan áður.

SA mætti liði Fjölnis í Egilshöllinni í gær og vann með fjórum mörkum gegn tveimur. Silvía Rán Björgvinsdóttir skoraði tvö af mörkum SA og Akureyringurinn Berglind Leifsdóttir skoraði bæði mörk Fjölnis. SA-konur náðu tveggja marka forskoti í fyrsta leikhluta og bættu við þriðja markinu um miðjan annan leikhluta áður en heimakonur í Fjölni komust á blað. Fjórða mark SA kom um fimm mínútum fyrir leikslok, en Fjölnir minnkaði muninn á lokamínútunni.

Okkar konur eru langefstar í deildinni með 30 stig, hafa unnið tíu leiki og tapað einum. Fjölnir hefur náð sér í 12 stig í níu leikjum og Skautafélag Reykjavíkur er án stiga eftir átta leiki. 

  • Fjölnir - SA 2-4 (0-1, 1-2, 1-1)

Gangur leiksins

  • 0-1 Silvía Rán Björgvinsdóttir (18:41). Stoðsending: Aðalheiður Ragnarsdóttir.
  • 0-2 Anna Sonja Ágústsdóttir (21:43). Stoðsending: Silvía Rán Björgvinsdóttir, Ragnhildur Kjartansdóttir.
    - - -
  • 0-3 Arndís Eggerz Sigurðardóttir (27:41). Stoðsending: Védís Valdemarsdóttir.
  • 1-3 Berglind Leifsdóttir (34:30). Stoðsending: Sigrún Árnadóttir.
    - - -
  • 1-4 Silvía Rán Björgvinsdóttir (54:26). Stoðsending: Ragnhildur Kjartansdóttir.
  • 2-4 Berglind Leifsdóttir (59:32). Stoðsending: Teresa Snorradóttir.

Fjölnir
Mörk/stoðsendingar: Berglind Leifsdóttir 2/0, Teresa Snorradóttir 0/1, Sigrún Árnadóttir 0/1.
Varin skot: Karitas Halldórsdóttir 32 (88,89%).
Refsingar: 4 mínútur.

SA
Mörk/stoðsendingar: Silvía Rán Björgvinsdóttir 2/1, Anna Sonja Ágústsdóttir 1/0, Arndís Sigurðardóttir 1/0, Ragnhildur Kjartansdóttir 0/2, Aðalheiður Ragnarsdóttir 0/1, Védís Valdemarsdóttir 0/1.
Varin skot: Shawlee Gaudreault 16 (88,89%).
Refsingar: 2 mínútur.

Til að skoða leikskýrsluna á vef Íshokkísambandsins, smellið hér.

Einn leikur er eftir í deildinni fyrir jól, en þá mætast sunnanliðin. Næsti leikur hjá SA-konum er hins vegar ekki fyrr en 20. janúar þegar þær fara aftur í Egilshöllina og mæta Fjölni.