Fara í efni
Íshokkí

Jakob og Amanda best í íshokkíliðum SA

Íshokkífólk ársins hjá Skautafélagi Akureyrar: Jakob Ernfelt Jóhannesson og Amanda Ýr Bjarnadóttir. Mynd: SAsport.is.

Íshokkídeild Skautafélags Akureyrar hefur útnefnt íþróttafólk ársins 2023 úr sínum röðum. Það eru þau Amanda Ýr Bjarnadóttir og Jakob Ernfelt Jóhannesson sem urðu fyrir valinu. 

Amanda Ýr er fædd árið 2006 spilar bæði með meistaraflokki kvenna og U18 liði SA. Hún er ein af lykilleikmönnum meistaraflokks og hluti af fyrirliðateymi liðsins. Þá er hún einnig fyrirliði í U18 landsliði stúlkna sem tók þátt í æfingamóti á Spáni í haust og er á leið í æfingabúðir með A-landsliðinu. 

Jakob er aðalmarkvörður SA Víkinga og markvörður A-landsliðs Íslands. Hann spilaði stórt hlutverk í liði SA sem vann deildarmeistaratitilinn með því að vinna alla leiki nema einn á tímabilinu. Jakob var lykilmaður í þeim árangri með 94,5% markvörslu á tímabilinu.

Eftirfarandi frétt og umsögn um þau Amöndu Ýri og Jakob er á vef Skautafélags Akureyrar, sasport.is:

Íshokkíkona og íshokkímaður hokkídeildar Skautafélags Akureyrar árið 2023 eru þau Amanda Ýr Bjarnadóttir leikmaður meistaraflokks kvenna og U18 og Jakob Ernfelt Jóhannesson markmaður í meistaraflokki karla og afís þjálfari. Hokkídeildin óskar þeim báðum innilega til hamingju með titlana sem þau er vel að komin.

Amanda hóf að spila íshokkí 10 eða 11 ára gömul og var þá áður búin að prófa að æfa bæði fimleika, fótbolta og dans. En hvernig stóð á því að hún skellti sér í hokkíið? Jú, hún var nokkuð iðin að fara á skautadiskó og svo voru nokkrir bekkjarfélagar að æfa og þannig kviknaði áhuginn.

Amanda stundar nám í 2. bekk í Menntaskólanum á Akureyri og má með sanni segja að sé lítill tími fyrir annað en nám og hokkí þar sem hún spilar bæði með U18 liði SA sem og meistaraflokki kvenna. Amanda er ein af lykilleikmönnum meistaraflokks og er hluti af fyrirliðateyminu þar. Hún er metnaðarfull, vinnusöm og góður liðsfélagi og er félagi sínu sannarlega til sóma bæði á ísnum og utan hans. Amanda er einnig fyrirliði í U18 landsliði stúlkna sem tók þátt í 4Nation í Jaca á Spáni í nóvember s.l. og fer í byrjun árs 2024 til Sofiu í Búlgaríu þar sem liðið tekur þátt á HM í 2. deild B. Áður en að Búlgaríuferðinni kemur mun hún þó fyrst taka þátt í æfingabúðum A landsliðs kvenna sem fram fer á Akureyri í lok desember en Amanda lék með A landsliðinu í fyrsta sinn fyrr á þessu ári í Mexíkóborg. Amanda er vaxandi leikmaður og frábær fyrirmynd sem á framtíðina fyrir sér. Við óskum henni góðs gengis í komandi verkefnum á ísnum sem annars staðar.

Jakob Ernfelt Jóhannesson er aðalmarkvörður SA Víkinga og landsliðsmarkvörður Íslenska karlalandsliðsins í íshokkí. Jakob spilaði stórt hlutverk í liði SA Víkinga sem urðu deildarmeistarar á árinu og náðu þeim eftirtektarverða árangri að vinna alla nema einn leik á tímabilinu. Jakob var lykilmaður í þessum árangri en hann var með marvörslu upp á 94.5 % á tímabilinu sem er eitt hæsta hlutfall markvörslu sem nokkur markvörður hefur náð frá upphafi deildarkeppninnar á Íslandi. Jakob spilaði 4 landsleiki með íslenska landsliðinu á HM á Spáni og átti stóran þátt í frábærum sigri Íslands á Ástralíu þar sem hann var valinn maður leiksins. Jakob er með hæstu markvörsluprósentu allra markvarða í deildinni á núverandi tímabili og lið SA Víkinga ósigrað, liðið hefur einfaldlega ekki tapað deildarleik með Jakob í markinu á öllu árinu 2023.

Jakob mætti fyrst á íshokkíæfingar 7 ára gamall en ílengdist ekki í sportinu þá, hann æfði ýmsar greinar s.s. júdó, sund, badminton ofl en svo var það aftur um 12 ára aldur að vinur hans fékk hann til að mæta með sér á æfingu að hann féll fyrir íþróttinni. Þannig byrjaði hann seinna en margir að spila íshokkí en fljótlega eftir að hann byrjaði prófaði hann að fara í markið og þaðan var hreinlega ekki aftur snúið.

Árið 2019 var Jakob orðin aðalmarkvörður SA Víkinga en ásamt Róberti Steingrímssyni mynduðu þeir geysilega sterkt markmannsteymi í ungu liði SA. SA Víkingar urðu Íslandsmeistarar strax á þeirra fyrsta ári og hefur liðið verið gríðarlega sigursælt síðan og varla tapað deildarleik. Það sem skilar Jakobi í fremstu röð á jafn skömmum tíma er að Jakobi eru engin takmörk sett þegar kemur að vinnusemi. Jakob hefur alla tíð lagt ómælda vinnu á sig til að bæta sig sem íþróttamaður og aukaæfingarnar farnar að skipta þúsundum. Á sama tíma hefur Jakob alltaf gefið aukalega af sér til annarra bæði í þjálfun og öðrum sjálfboðaliðastörfum innan félagsins. Jakob er sannarlega frábær fyrirmynd og er flottur fulltrúi félagsins og íshokkí íþróttarinnar.

Ólöf Björk Sigurðardóttir formaður hokkídeildar afhendir Amöndu viðurkenningu fyrir titilinn íshokkíkona hokkídeildar 2023

Ólöf Björk Sigurðardóttir formaður hokkídeildar afhendir Jakobi viðurkenningu fyrir titilinn íshokkímaður hokkídeildar 2023