Fara í efni
Íshokkí

Íslandsbikarinn „lánaður“ suður!

Akureyringarnar fjórir sem urðu Íslandsmeistarar með Skautafélagi Reykjavíkur í kvöld. Frá vinstri: Birkir Árnason, Heiðar Kristveigarson, Axel Orongan og Ævar Arngrímsson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

SA-Víkingar þurftu að sjá á eftir Íslandsbikarnum í íshokkí suður í kvöld þegar þeir mættu liði Skautafélags Reykjavíkur í oddaleik í úrslitaeinvígi liðanna í troðfullri Skautahöllinni á Akureyri. Akureyringar eru lang sigursælastir allra á Íslandsmótinu frá upphafi og einn fjölmargra áhorfenda hafði  á orði að leikslokum í kvöld að bikarinn yrði bara lánaður suður í eitt ár!

Gestirnir fóru með 4-3 sigur úr býtum og tóku Íslandsbikarinn með sér suður. SA-Víkingar voru að mörgu leyti betra liðið og sóttu ákaft, áttu mun fleiri skot að marki en gestirnir, en líklega var það Atli Valdimarsson í marki SR sem kalla mætti hetju sunnanmanna í þessum sigri.

Orri Blöndal (númer 2) sendir fyrir markið og Hafþór Andri Sigrúnarson (23) skorar fyrsta mark leiksins ... 

... og fögnuður hans hófst í óvenjulegri stellingu!

Mörkin:

  • 1-0 (08:16 mín.) – Hafþór Andri Sigrúnarson (stoðsending Orri Blöndal)
  • 1-1 (09:53) – Axel Snær Orongan (án stoðsendingar)
  • 2-1 (16:39) – Jóhann Már Leifsson (Andri Már Mikaelsson)
  • 2-2 (19:56) – Axel Snær Orongan (Ólafur Björnsson)
    _ _ _
  • 2-3 (22:17) – Pétur Maack (Markús Ólafarson)
  • 3-3 (29:10) – Hafþór Andri Sigrúnarson (án stoðsendingar)
    _ _ _
  • 3-4 (47:07) – Kári Arnarsson (Sölvi Atlason)

Akureyringurinn Axel Snær Orongan var góður í liði SR í kvöld og gerði tvö mörk. Hér fagnar hann því fyrra ásamt Jonathan Otuoma.

Fyrsta markið kom eftir tæplega níu mínútna leik þegar SR-ingar misstu pökkinn fremur klaufalega í sókninni og SA-Víkingar voru snöggir fram, komnir fjórir á móti einum og nýttu sér það af yfirvegun, komu sér í gott færi og Hafþór Andri Sigrúnarson skoraði eftir stoðsendingu frá Orra Blöndal.

Axel Orongan lét ekki á sig fá þótt heimamenn kæmust yfir og rétt um mínútu seinna lék hann listir sínar í kringum mark SA og eiginlega eins og varnarmenn SA byggjust ekki við skoti, en Axel fór í kringum markið og náði að lauma pökknum framhjá Jakobi í markinu.

SR-ingar fengu fjórar refsingar í fyrsta leikhlutanum og í eitt skiptið þegar þeir voru einum færri náðu SA-Víkingar að nýta sér það þegar Jóhann Már Leifsson fékk sendingu frá Andra Má Mikaelssyni og skoraði. Fremur einfalt mark, en auðvelt að segja það uppi í blaðamannastúku þegar ójafnt er í liðunum.

Aftur var það Axel Snær Orongan sem svaraði fyrir SR, aftur með óvæntu skoti, en núna af aðeins lengra færi. SR-ingar voru einum fleiri, en Axel var með varnarmann fyrir framan sig, skaut framhjá honum og virtist pökkurinn fara undir markmann SA – sá hann mögulega frekar seint.

Atli Valdimarsson, markvörður SR, varði tvívegis á undraverðan hátt frá Unnari Rúnarssyni á lokasekúndum leiksins; hér er annað atvikið. Eins gott fyrir markvörð í íshokkí að vera liðugur!

Atli markvörður hélt gestunum á floti

Gestirnir náðu síðan forystunni snemma í öðrum leikhluta þegar þeir voru með pökkinn á eigin varnarsvæði, SA-Víkingar pressuðu og Markús Ólafarson brá á það ráð að senda pökkinn hátt í loft upp og fram svellið. Þar mistókst varnarmanni SA-Víkinga að koma höndinni fyrir pökkinn á fluginu þannig að Pétur Maack slapp einn inn fyrir og skoraði af stuttu færi.

Hafþór Andri Sigrúnarson skoraði sitt annað mark um miðjan annan leikhluta og jafnaði leikinn í 3-3. Hann var þá í baráttu við tvo SR-inga á eigin varnarsvæði, vann pökkinn og lék á einn í viðbót, var kominn einn í sóknina og lét bara vaða á markið. Engin stoðsending, þetta mark var algjörlega eign Hafþórs Andra.

SA-Víkingar voru líklegri til að skora, eða að minnsta kosti áttu þeir fleiri skot en gestirnir, 32 skot á móti 15 skotum gestanna í fyrstu tveimur leikhlutunum. Það má því kannski orða það á hinn veginn að Atli Valdimarsson hafi haldið SR-ingum inni í leiknum með því að verja fjölda skota frá heimamönnum. Aftur var jafnt að loknum öðrum leikhluta, 3-3. Tuttugu mínútur eftir til að skera úr hvort SA-Víkingar myndu vinna titilinn fimmta árið í röð.

Bjarki Jóhannesson fyrirliði SR með Íslandsbikarinn í kvöld.

Vonir SA-Víkinga fjöruðu út

SR náði forystunni þegar tæpar 13 mínútur voru eftir af leiknum og verður að segjast að það var heldur klaufalegt hjá heimamönnum. Bæði lið voru með mann í refsiboxinu og heimamenn í sókn, töpuðu pökknum, SR-ingar fara í sókn, skot að marki sem varnarmaður ver, en pökkurinn féll fyrir Kára sem náði að skora úr þröngu færi.

SA-Víkingar sóttu ákaft enda tifaði tíminn og sífellt varð minna og minna eftir – og gestirnir með forystuna. Lítið kom þú út úr sóknaraðgerðum heimamanna og þegar þeir hittu á markið var Atli þar áfram kletturinn í liði SR. Það hjálpaði heldur ekki SA-Víkingum að fá refsingu þegar tvær og hálf mínúta var eftir af leiknum og spila einum færri þar til hálf mínúta var eftir. Þeir sóttu ákaft á lokamínútunni, komust í dauðafæri, en náðu ekki að nýta það – og í framhaldinu urðu átök og refsing á bæði lið. Tíu sekúndur eftir og heimamenn náðu ekki að nýta þann tíma til að skora og jafna metin.

SR er því Íslandsmeistari karla í íshokkí 2023.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Mörk/stoðsendingar/varin skot

SA
Hafþór Andri Sigrúnarson 1/0, Jóhann Már Leifsson 1/0, Andri Már Mikaelsson 0/1, Orri Blöndal 0/1
Refsingar: 18 mínútur
Varin skot: 16

SR
Axel Snær Orongan 2/0, Kári Arnarsson 1/0, Pétur Maack 1/0, Markús Ólafarson 0/1, Ólafur Björnsson 0/1, Sölvi Atlason 0/1.
Refsingar: 18 mínútur
Varin skot: 33